Nemanja Malovic: Ég er orðinn mjög spenntur

Nemanja Malovic

(frétt af sport.is) Nemanja Malovic sem á dögunum skrifaði undir eins árs samning við handknattleikslið Hauka segist vera orðinn mjög spenntur fyrir því að koma til Íslands og hefja undirbúningstímabilið með Haukum. Nemanja Malovic er á 20. aldursári, er frá Svartfjallalandi og spilar stöðu hægri skyttu.

Malovic er uppalinn í svartfellska liðinu Cetinje Zeppelins en spilaði síðast með króatíska liðinu Medjemurje sem hafnaði í 10. sæti af 16 liðum á síðasta tímabili. Malovic hefur verið viðriðinn yngri landslið Svartfjallalands auk þess sem hann átti þátt í silfurverðlaunum svartfellska ungmannalandsliðsins á heimsmeistaramótinu á Kýpur 2007.

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir því að koma til Íslands og spila með Haukum. Ég held að Haukar sé mjög gott félag,” sagði Nemanja Malovic í samtali við Sport.is.

Aðspurður hvort hann hafi persónuleg markmið fyrir timabilið sagði Malovic: “Ég hef þegar náð markmiði mínu – Að stíga stórt skref á ferlinum.”

Malovic segir að hann hafi ekki enn fengið að vita hvort hann fái íbúð í Hafnarfirði eða einhvers staðar annars staðar, en það muni skýrast er hann kemur til landsins 1. ágúst og mun hefja æfingar með Haukum.

Malovic líst vel á komandi tímabil og segir: “Haukar eru með frekar ungt lið að ég held og við verðum með góðan leikmann í hverri einustu stöðu. Við erum með góða leikmenn og ég held að tímabilið verði gott,” sagði Malovic að lokum við Sport.is (sport.is, 28. júlí 2011).