Nóg að gerast í fótboltanum – heimasíðan mun vera líflegri út sumarið!

HaukarVið biðjum lesendur heimasíðunnar afsökunar á þvi að engar fréttir hafi borist af leikjum helgarinnar hjá karla og kvennaliðum Hauka en úr því verður nú bætt hið snarasta. Karlalið Hauka og Þróttar mættust sem kunnugt er sl. föstudagskvöld og leik leiknum með 2-1 sigri Þróttara. Leikur okkar manna olli í stuttu máli vonbrigðum og þeir þurfa að gera mun betur í næsta leik sem er nú á fimmtudag gegn Grindavík.

Grindavík situr í öðru sæti deildarinnar með tveimur stigum meira en Haukar sem eru í þriðja sæti. Sigur í þessum leik fleitir því Haukum upp í annað sæti. Leikur liðanna fer eins og áður sagði fram á fimmtudaginn nk. og hefst hann kl.19:15 á heimavelli þeirra Grindvíkinga. Við hvetjum Haukafólk til að fjölmenna á leikinn enda er hann feykilega mikilvægur í baráttunni um sæti í efstu deild!

Kvennalið Hauka tók sl. sunnudag á móti BÍ/Bolungarvík, leikurinn vannst 3-1 með mörkum frá Huldu Sigurðardóttur, Katrínu Huldu Guðmundsdóttur og Eydísar Lilju Eysteinsdóttur fyrir Hauka. Sigurinn var afar kærkominn fyrir stelpurnar sem hafa átt misjöfnu gengi að fagna að undanförnu. Liðið er eftir sigurinn í fjórða sæti, einu stigi frá þriðja sætinu.

Næsti leikur Haukastúlkna fer fram á föstudagskvöldið kl.20:00 á Akranesi þar sem heimastúlkur í ÍA bíða okkar stúlkna. Við hvetjum að sjálfsögðu allt Haukafólk til að styðja við bakið á stelpunum okkar!

Loks skal að svo tekið fram að ritari heimasíðunnar lofar því að framvegis munu birtast fréttir af fótboltaliðum, sem og annari starfsemi í Haukum mun örar en verið hefur í sumar, kíkið því reglulega við hér!