Mikið um að vera hjá handboltaliðum Hauka um helgina

Elías Már verður í baráttunni í tveimur leikjum um helgina. Sem leikmaður U-liðs Hauka og sem þjálfari kvennaliðs Hauka.

Það verður mikið um að vera hjá meistaraflokkum Hauka í handbolta um helgina en þá eiga öll þrjú Haukaliðin heimaleik í Schenkerhöllinni. Það verður U-lið karla sem hefur leik þegar þeir taka á móti Val U á laugardaginn kl. 16:30 en fyrir leikinn eru liðin í 5. og 6. sæti Grill 66 deildar karla þar sem að Haukar eru með 5 stig og Valur með 4 en bæði lið hafa leikið 5 leiki. Það má því búast við hörkuleik þegar að þessi tvö frændlið mætast á laugardaginn.

Á sunnudaginn verður síðan boðið upp á tvíhöfða þegar að meistaraflokkar karla og kvenna taka á móti Gróttu og ÍBV. Klukkan 18:00 eru það karlarnir sem mæta Gróttu en fyrir leikinn eru Haukamenn í harðri toppbaráttu í 3. sæti með 10 stig úr 7 leikjum á meðan hafa Gróttumenn ekki náð í eitt einasta stig úr þessum 7 leikjum og sitja þeir því á botni deildarinnar. Þeir hafa þó verið að sækja í sig veðrið í síðustu leikjum og bætt við sig góðum leikmönnum á meðan Haukamenn hafa verið að missa leikmenn það verður því um erfiðan leika að ræða fyrir Haukamenn sem þurfa að ná toppleik til þess að vinna.

Seinna um kvöldið eða kl. 20:00 mæta Haukastelpurnar ÍBV í toppslag í Olís deild kvenna en fyrir leikinn eru liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar þar sem að Eyjakonur hafa 9 stig úr 6 leikjum á meðan Haukar hafa 8 úr leikjunum 6. Það verður því hart barist þegar að liðin mætast á sunnudag og því um að gera fyrir allt Haukafólk að láta sig ekki vanta á þennan leik né hina leiki helgarinnar þar sem að Haukaliðin verða í eldlínunni. Áfram Haukar!