Meistaradeildin

Það er kominn föstudagur og styttist í leikinn við Vardar Skopje í Meistaradeildinni á sunnudaginn kl. 20.00 á Ásvöllum. Þetta er mjög mikilvægur leikur, sá mikilvægast í deildinni til að ná 3ja sætinu í riðlinum. Við vitum öll að mikil deyfð hefur verið yfir strákunum okkar að undanförnu en við höfum tröllatrú á þeim og erum fullviss að þeir ná að rífa sig upp á sunnudaginn og leggja Makedoníumenn að velli. Til þess þurfa þeir góðan stuðning og þann stuðning geta áhorfendur svo sannarlega veitt með því að fjölmenna á Ásvelli og styðja við bakið strákunum.

Forsala miða er í Firði Hafnarfirði í dag, föstudag kl. 16:00 til 19:00 og á morgun laugardag kl. 11:00 til 15:00. Á sunnudag er miðsala á Ásvöllum frá kl. 17:00.

Meistaradeildin

Nú styttist í veisluna þar sem strákarnir okkar spila við þá bestu í heiminum í Meistaradeildinni. Fyrsti leikurinn er á sunnudaginn kl. 17.00 þegar strórliðið Barcelona heimsækir okkur á Ásvelli.

Barcelona er eitt af stærstu liðum heims, margfaldir Evrópumeistarar með frábæra leikmenn í öllum stöðum, bæði byrjunarlið og bekkur. Þetta eru engar smásleggjur og varla veikur hlekkur í liðinu. En við þekkjum strákana okkar vel og vitum að þeir geta strýtt Börsungum verulega en til þess er góður stuðningur áhorfenda mjög mikilvægur.

Meistaradeildin er stórviðburður í íslenskum handbolta og íslenskum íþróttum, sem enginn má missa af og hvetjum við alla til að taka þátt í ævintýrinu með okkur. Allir Haukar, Hafnfirðingar og aðrir handboltafíklar mæta á Ásvelli, taka þátt í fjörinu og fylgjast með Haukastrákunum okkar spila við þá bestu í heiminum.

Leikurinn hefst eins og áður segir kl. 17.00 en við hvetjum fólk til að mæta tímanlega og hrista sig saman því við ætlum að skemmta okkur og hafa góða stemmingu. Andlistmálun fyrir börn og fullorðna verður frá kl. 16.00. Karlakórinn Þrestir mætir að venju og syngur fyrir okkur af sinni alkunnu snilld. Kynning leikmanna verður að hætti Hauka eða með öðrum orðum “mögnuð”. En þetta er bara byrjunin því kl. 17.00 er komið að aðaldagskránni, leiknum sjálfum og þá hefst fjörið fyrir alvöru.

Forsala miða verður í Firði, Hafnarfirði föstudag kl. 16.00-19.00 og laugardag kl. 10.00-16.00. Miðasala á Ásvöllum hefst kl. 14.00 á leikdag, sunnudag. Miðaverð er kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 300 fyrir börn 6 til 14 ára. Tuttugasti hver gestur fær boðsmiða á nýjustu mynd George Clooney, Intolerable Cruelty.

Gott pláss er á Ásvöllum og allir eru velkomnir að taka þátt í Meistaradeildinni með Haukum.

Meistaradeildin

Leikurinn við Magdeburg verður föstudaginn 17/10. Verið er að vinna í hópferð fyrir stuðningsmenn frá 16/10 – 18/10 eða 19/10 í gegnum Köpen. Leikurinn við Barcelona verður laugardaginn 22/11. Einnig er verið að leita leiða til að fara í hópferð þá frá 20/11 – 23/11 í gegnum London.

Fylgist með!

Meistaradeildin

Eins og við sögðum áðan hefur nú ræst draumurinn um að komast í Meistaradeildina. Haukar eru í B-riðli og þar eru sko engin smálið. Við erum að tala um Magdeburg og Barcelona og í riðlinum er einnig Vardar Skopje frá Makedoníu.
Það er ljós að annasamur vetur er framundan, þetta verður erfitt og mikið álag vegna fjölda leikja, erfiðra ferðalaga o.fl. En ánægjan sem þátttakan gefur ætti að fá menn til að gleyma öllum slíkum “smámálum”.

Meistarakeppnisriðillinn hefst 11. eða 12. október gegn Barcelona heima, síðan heimsækja Haukamenn Alfreð Gíslason í Magdeburg 18. október. Að því loknu kemur hlé til 8. nóvember þegar Skopje frá Makedóníu heimsækir Ásvelli. Því næst taka Haukamenn á móti Magdeburg á Ásvöllum þann 15. nóvember. Viku síðar 22. nóvember spila Haukamenn í Barcelona og að lokum í Makedóníu 29. nóvember.
Það eru átta fjögurra liða riðlar í Meistaradeildinni og að lokinni riðlakeppni fara tvö efstu lið úr hverjum riðli áfram, liðin í fjórða sæti falla úr keppni en liðin í þriðja sæti í hverjum riðli fara inní fjórðu umferð í Evrópukeppni Bikarhafa og frábært væri ef strákunum okkar tækist það.

Framundan er veisla fyrir alla handboltaunnendur og menn ættu ekki að láta þessa leiki framhjá sér fara, heldur mæta á leikina og styðja íslenskan handknattleik. Við Haukar vitum hversu mikilvæg þátttaka í alþjóðlegum mótum er fyrir handboltann í landinu, sem og fyrir félagið okkar og ekki síður fyrir strákana sjálfa. Haukar eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að efla þjóðaríþrótt okkar Íslendinga og vonumst við eftir góðum stuðningi landans.

Hér kemur leikjaplanið aftur svo allir Haukar og aðrir stuðningsmenn geta tekið frá réttu dagana.

11. okt. Haukar – Barcelona
18. okt. Magdeburg – Haukar
8. nóv. Haukar – Skopje
15. nóv. Haukar – Magdeburg
22. nóv. Barcelona – Haukar
29. nóv. Skopje – Haukar

Meistaradeildin ???

Haukar hafa ákveðið að Íslandsmeistarar mfl.karla taki þátt í Evrópukeppni á næstu leiktíð og er stefnan sett á að komast í Meistaradeildina. Til þess að það takist þurfa strákarnir að vinna fyrstu umferð sem leikin verður heima og heiman 13./14. sept. og 20./21. sept. Dregið verður í þessa umferð 15. júlí.
Fari svo illa að við töpum fyrstu umferðinni dettur liðið inní 2.umferð í EHF keppninni. Náist sigur í fyrstu umferðinni er liðið komið í Meistaradeildina þar sem 32 lið spila í átta fjögurra liða riðlum. Þessir leikir eru spilaðir frá 11. október til 30. nóvember og spilar hvert lið þrjár umferðir eða sex leiki, heima og heiman. Að lokinni riðlakeppninni fara tvö efstu lið úr hverjum riðli áfram í Meistaradeilinni, liðin í þriðja sæti fara inní fjórðu umferð í Evrópukeppni Bikarhafa en liðin í fjórða sæti eru fallin úr keppni.

Við vonum að heppnin verði með okkur þegar dregið verður 15. júlí og eins að draumurinn um að komast í Meistaradeildina rætist. Ef það tekst er ljóst að þetta verður mjög erfitt, bæði fyrir strákana þar sem mikið álag verður á þeim vegna fjölda leikja og erfiðra ferðalaga. Eins verður þetta mjög erfitt fjárhagslega en deildin hefur stóran hóp sjálfboðaliða og eins góða stuðnings- og styrktaraðila, sem auðveldar okkur þetta verkefni.

Við vitum hversu mikilvægt það er fyrir félagið og strákana sjálfa að taka þátt í alþjóðlegum mótum og eins styrkir þetta og eflir handboltann í landinu. Haukar eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum og vonumst við eftir góðum stuðningi landans.