Lyfta Haukar bikarnum í Mosó í kvöld?

Giedrius Morkunas

Giedrius var frábær í marki Hauka á föstudaginn með tæplega 60% markvörslu.

Á föstudaginn fór fram leikur II í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Olísdeild karla. Haukar komu í leikinn fullir sjálfstrausts eftir góðan sigur á Aftureldingu í leik I í N1 höllinni. Haukar tóku snemma frumkvæðið í leiknum og með frábærri vörn og markvörslu höfðu gestirnir aðeins skorað 4 mörk eftir 25 mínútna leik en hálfleikstölur voru 11-6. Afturelding mætti að venju betur stemmdir í seinni hálfleikinn en Haukapiltar stóðust álagið og hleyptu þeim aldrei upp að hlið sér þrátt fyrir að vera á töluvert einum færri og tveimur færri um tíma. Lokatölur leiksins voru 21-16. Haukavörnin var öflug í leiknum en að baki henni stóð besti maður vallarins, markvörðurinn knái, Giedrius Morkunas. Hann varði skot í öllum regnboganslitum og endaði með tæplega 60% markvörslu sem er ótrúlegt gegn jafn sterku liði og Aftureldingu. Enginn spilar betur en mótherjinn leyfir, sagði einhver, og  það átti sannarleg vel við í þessu leik. Einar Pétur tók út leikbann og öllum að óvörum ákvað Patrekur að kalla til „gamlan“ baráttujaxl, Frey Brynjarsson. Það yljaði fólki sannalega að sjá Freysa aftur á parketinu á Ásvöllum enda einstakur leikmaður.
Nú eru okkar menn komnir í þá mögnuðu stöðu að geta landað Íslandsmeistaratitlinum í Mosfellsbænum í kvöld, mánudag.  Ef það tekst þá brjóta þeir blað í sögu úrslitakeppninnar með því að fara taplausir í gegnum öll úrslitin. Til að þetta megi takast verða Haukaáhorfendur að flykkjast í Mosfellsbæinn í kvöld. Á föstudaginn var frábær stemning í Schenkerhöllinni og Haukaherinn lét vel í sér heyra. Jón Gunnar hefur fengið til liðs við sig iðkendur úr yngri flokkunum sem sannarlega magna upp stemninguna. En það var ekki bara þessi hópur sem lét vel í sér heyra heldur voru allir í húsinu virkir og þannig viljum við hafa það. Mætum hress í kvöld og gerum þetta að ógleymanlegri kvöldstund.

Leikurinn hefst kl. 19:30 en við skorum á fólk að mæta tímalega.

ATH: Rútuferðir frá Ásvöllum kl 18.00. Miðar seldir í forsölu á Ásvöllum í dag.

Áfram Haukar!