Loksins sigur hjá Haukastúlkum

HaukarHaukar og ÍR mættust í gær á Schenkervellinum á Ásvöllum í 1.deild kvenna í knattspyrnu. Leikar endurðu 2-0 fyrir Hauka þar sem þær Katrín Klara Emilsdóttir og Sæunn Sif Heiðarsdóttir skoruðu mörk Hauka 28. mínútu og 74. mínútu. 

Heimastúlkur voru sterkari aðilinn í leiknum, sér í lagi í síðari hálfleik þar sem hver sóknin á fætur annari dundi á ÍR-markinu. Gestrnir áttu þó sína sénsa en gekk illa að skapa sér algjör dauðafæri. Eftir að Sæunn Sif hafði komið Haukum í 2-0 var hins vegar aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda.

Sigurinn er Haukaliðinu afar kærkominn en liðið hafði ekki unnið sigur síðan 2. júní á BÍ/Bolungarvík. Leikir á móti ÍA, Þrótt R, Fylki og Tindastól höfðu tapast í millitíðinni. Stelpurnar sýndu hins vegar loksins sitt rétta andlit í gær og vonandi er þetta upphafið að nýrri byrjun hjá liðinu því skammt er stórra högga á milli í deildinni þessa dagana og næsti leikur strax á mándagskvöldið gegn Víkingi Ólafsvík. Sá leikur fer raunar fram á Grundarfirði og er þeim sem þetta skrifar ekki kunnugt um hvers vegna svo er.

Haukar og Víkingur Ólafsvík hafa tvívegis mæst áður í vetur í æfingamótsleikjum og í bæði skiptin unnu Haukar stóra sigra. Leikurinn á mánudag verður hins vegar langt því frá auðveldur því Víkingsstúlkur hafa sýnt mikla framför undanfarið, sérstaklega með komu tveggja erlendra leikmanna í liðið.