Lokaumferðin á SÞG.

Jæja, þá er skákþingi Garðabæjar lokið. Haukamenn náðu einungis að næla sér í 3 vinninga í lokaumferðinni. Sjálfsagt hefur skákþreyta haft þar eitthvað að segja, en þess má geta að samhliða SÞG fóru fram síðstu umferðirnar í Boðsmóti Hauka.

Í lokaumferðinni gátu þeir Sverrir Örn og Þorvarður náð verðlaunasæti með sigri. Sveinn Arnarsson og Sverrir Þorgeirsson áttu einnig möguleika á verðlaunum (unglinga/U-1800 stiga), en þeir mættust einmitt innbyrðis.

Sverrir stýrði svörtu mönnunum gegn Jóhanni Ragnarssyni. Upp kom Bogo-Indversk vörn og fannst mér vera farið að halla á Sverri í miðtaflinu. Síðar er ég leit á stöðuna var Jói kominn í kóngssókn og vann fljótlega eftir það. Þar sem ég hafði ekki tíma til að setja mig almennilega inn í stöðuna, þori ég ekki að fullyrða um það hvort Sverrir hafi átt vörn eður ei.

Eins og áður sagði mættust Svenni og Sverrir Þ. innbyrðis. Þessari skák lauk alveg ótrúlega fljótt af og þóttist maður nokkuð viss um að jafntefli hefði verið samið. Svo var þó ekki því Sverrir lék víst illa af sér í byrjuninni og gaf. Undirritaður hefur einnig lent í þessu, en á GA-mótinu 1998 tapaði hann í 13 leikjum á móti Einari Hjalta Jenssyni. Förum ekki nánar út í það! 🙂

Einar G. hafði hvítt á móti Páli Sigurðssyni og þurfti að lúta í gras.

Ingi lenti í verra endatafli gegn Atla Frey Kristjánssyni og tapaði um síðir. Báðir höfðu þeir Biskup(samlitir) og 5 peð, en fjarlægt frípeð Atla gaf honum visst frumkvæði. Þarna hefur nú samt þreyta haft sitt að segja, því undirritaður er sannfærður um það að Ingi hefði átt að halda þessu.

Þorgeir stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Elsu Maríu.

Að lokum átti undirritaður í höggi við margfaldan Íslandsmeistara kvenna, Guðlaugu Þorsteinsdóttur. Þetta er í fyrsta skipti sem ég tefli við Guðlaugu, en þegar ég fékk skákáhugann 5 ára gamall var hún eitt af átrúnaðargoðum mínum í íslensku skáklífi! 🙂
Guðlaugu nægði jafntefli til að tryggja sér óskipt annað sætið auk titilsins Skákmeistari Garðabæjar, en ekkert annað en sigur dugði mér til að ná verðlaunasæti. Mér tókst að ná þó nokkru frumkvæði eftir byrjunina, sem ég hélt mest allan tímann. Í lokin náði ég svo að sauma saman skemmtilegt mátnet sem á án efa eftir að verða mér í fersku minni! 🙂

Hvítt: Þorvarður Fannar Ólafsson
Svart: Guðlaug Þorsteinsdóttir.
(Sikileyjarvörn 3.Bb5).

1.e4-c5 2.Rf3-Rc6 3.Bb5

Um þennan leik er hægt að segja að hann byggist eiginlega frekar upp á leti, en einhverjum flóknum stúderingum. 🙂 Í alvöru talað þá þykir mér þetta vera fínn leikur fyrir þá sem vilja sneiða hjá þeim frumskógi sem Sikileyjarvörnin er. Auk þess finnst mér oft koma upp áhugaverðar stöður í þessu afbrigði.

2.-g6 3.Bxc6-dxc6 5.h3-Bg7 6.d3-e5 7.Rc3-Rf6 8.Be3

Það hvarflaði ekki einu sinni að mér að taka peðið með 8.Rxe5 því eftir 8.-Rxe4 hlýtur svartur að fá mjög virka stöðu.

8.-b6?!

Þekkt ónákvæmni í þessu afbrigði! Með peðið á b7 er staða svarts mun traustari. Betra hefði verið að leika hér t.d. 8.-De7.

9.Dd2(?!)

Hér má ég aftur á móti taka peðið með Rxe5. Eftir að hafa látið tölvuna yfirfara skákina, stingur hún strax upp á þessum leik! Líklegt verður að teljast að svartur hefði svarað með 9.-Rxe4 en þá á hvítur leikinn 10.Df3! og hefur miklu betri stöðu! Reyndar mælir tölvan ekki með 9.-Rxe4 eftir 9.Rxe5.

9.-De7 10.a3-Rd7 11.0-0-Rf8

Svarti riddarinn er á leiðinni til d4 og því þarf hvítur að hafa hraðann á.

12.b4-Re6

Það er skiljanlegt að svartur vilji halda drottningarvængnum eins lokuðum og hægt er.

13.bxc5-bxc5

Það er spurning hvort ekki hefði verið betra að drepa með riddaranum.

14.Ra4-Rd4 15.Bxd4-cxd4 16.Db4

Frumkvæðið er hér klárlega í höndum hvíts, en svartur verst þó vel í framhaldinu.

16.-f6 17.Hfb1-Bf8 18.Dc4-De6

Þvingar fram drottningarkaup.

19.Rd2-Be7 20.Dxe6-Bxe6 21.Hb7-Bc8 22.Hb3-0-0

Þar sem Guðlaugu dugði jafntefli var ég soldið hissa á því að hún skildi ekki bjóða mér upp á þráleik með 22.-Be6. Ég ætlaði mér þó ekki að þráleika í þessari stöðu.

23.Rb2-Ba6 24.Rbc4-Kf7 25.Kf1-Ke6 26.Ke2-f5 27.f3(!)

Þessi leikur minn hefur í raun þann eina tilgang að reyna að tæla svartan til að drepa á e4 og viti menn, þetta bar árangur!

27.-fxe4? 28.Rxe4

Ég ætlaði mér alltaf að drepa með riddara á e4. Svartur getur núna látið mig fá tvípeð á c-línunni með 28.-Bxc4, en tvípeðið myndi þá falla í skuggann á virkni hvítu stöðunnar! Svartur má að mínu mati alls ekki skipta upp á hvítreitabiskupnum sínum!

28.-Kd5 29.Hab1!

Þetta er sá leikur skákarinnar sem ég er ánægðastur með! Hugmyndin kemur í ljós í 32.leik.

29.-Bxc4?

Einmitt það sem ég var að vonast eftir! Ég var alveg til í að gefa peð fyrir uppskipti á þessum biskup. Að auki get ég nú haldið planinu mínu áfram. 🙂

30.dxc4-Kxc4 31.Hb7-Hfe8?

Tapleikurinn! Svartur hefði varist best með því að þiggja peðið á a3. Þá hefði ég sennilega best leikið Ha1 aftur og unnið eitthvað af þessum peðum til baka. T.d. 32.-Bb4 33.Ha6-c5 33.Hxh7

32.Hd7!

Þar lá hundurinn grafinn. Svartur er nú lentur í stórhættulegu mátneti.

32.-a5 33.Rd2-Kc5

Leikur sig beint í mát, en eins og staðan er orðin, kemst svartur ekki hjá miklu liðstapi ætli hann sér að forðast mátið. 33.-Kc3 hefði gert skákina aðeins lengri, en framhaldið hefði þá orðið 34.Kd1!-Hab8 (34.-a4 35.Hxe7!-Hxe7 36.Hb4 með óverjandi máti) 35.Hxe7+-

Lokin urðu.

34.Kd3-Bd6 35.Re4+ og svartur gafst upp.

Lokastaða Haukamanna: (Ekki liggur fyrir endanleg sætaröð keppenda á heimasíðu T.G. eða skak.is og því verður vinningafjöldinn að duga. Undirritaður veit þó fyrir víst að hann endaði í 2-4.sæti.)

Þorvarður 5
Sverrir Örn og Sveinn 4
Feðgarnir Þorgeir og Sverrir 3
Ingi Tandri og Einar 2,5

Að lokum vil ég, fyrir hönd skákdeildar Hauka, þakka T.G. mönnum fyrir mjög skemmtilegt mót!