Lið Hauka sá aldrei til sólar í dag

Stefán Rafn var valinn maður leiksins í dag af Haukum í horni (mynd: Jón Páll)Í dag kom lið Fram í heimsókn á Ásvelli. Um var að ræða leik sem skipti bæði lið miklu máli til að tryggja sig með þeirra fjögurra bestu í lok móts. Ágætlega var mætt á völlinn og fólk spennt að sjá handboltaleik þar sem bæði lið myndu berjast fyrir þessum tveimur stigum semí boði voru. Skemmst er frá því að segja að Framliðið var Haukum fremri í dag á öllum sviðum handboltans. Meiri leikgleði, yfirvegun og barátta. Lokaniðurstaðan var tólf marka tap heimamanna, 22 – 34, sem voru eðlilega niðurlútir eftir leikinn. Haukaliðið virkaði yfirspennt og áttu ungu og efnilegu leikmenn liðsins í erfiðleikum með að finna glufur á vörn Framarar og að koma boltanum framhjá Magnúsi í markinu. Varnarlega áttu Haukamenn líka í erfiðleikum og var línan alltof oft laus sem þýddi að bæði mörk og vítaköst komu þar í gegn. Erfitt er að hrósa neinum sérstökum í okkar liði í dag en Birkir átti ágætis spretti í markinu og einnig sýndi Stefán Rafn fína takta inn á milli en var líka mjög mistækur. Freyr Brynjarsson var að vanda traustur og sá Haukamanna sem hættir aldrei að berjast.  

Þetta tap Hauka þýðir að þeir þurfa að vona að HK menn misstígi sig á morgun gegn Akureyri því sigri HK á morgun eru þeir komnir með tveggja stiga forskot á Hauka fyrir síðustu tvær lokaumferðirnar. Staðan er þannig að Haukar VERÐA að landa sigri í síðustu tveimur leikjum sínum, fyrst gegn FH úti og svo gegn Val heima.