Leikir Hauka og Vals í vetur

Á sunnudaginn fer fram enn einn stórleikurinn í N1 deild karla á Ásvöllum. Þá taka okkar menn á móti liðsmönnum bræðrafélags okkar úr Val. Leikurinn hefst stundvíslega klukkan 16:00 og hvetjum við fólk til að mæta tímanlega, hitta vini og kunningja, spjalla um leikinn og hafa gaman saman á Ásvöllum.

 

Liðin hafa mæst fimm sinnum það sem af er vetri. Þetta er því sjötti og jafnframt síðasti leikur liðanna. Liðin hafa þrívegis mæst í N1 deildinni, einu sinni í Eimskipsbikarnum og einu sinni í deildarbikarnum. Tvívegis hafa okkar strákar sigrað, einu sinni hafa leikar endað með jafntefli og tvívegis hafa Valsmenn unnið.

 

Haukar og Valur mættust í fyrsta leik tímabilsins og var það fyrsti alvöru leikurinn sem Aron Kristjánsson stjórnaði Haukum. Haukarnir mættu mjög ákveðnir til leiks og komu flestum á óvart sem mættu í nýju höll Valsmanna að Hlíðarenda, Vodafone höllina. En Valsmenn voru að hefja titilvörn sína. Haukarnir voru yfir í hálfleik 13 – 10. Seinni hálfleikurinn var jafn en Haukamenn alltaf töluvert á undan, seinni hálfleikurinn endaði jafn 10 – 10, sigur Hauka því staðreynd 23 – 20.
Í liði Hauka kom hinn síungi og efnilegi Halldór Ingólfsson skemmtilega á óvart, en hann var einmitt að koma heim eftir eins árs dvöl í Noregi. Hann skoraði 5 mörk og var markahæstur ásamt félaga sínum Andra Stefani. Magnús Sigmundsson varði 7 bolta og félagi hans Gísli Guðmundsson 5 bolta, en Gísli var einmitt að spila sinn fyrsta leik í Haukabúningnum eins og aðrir guttar á borð við, Gunnar Berg sem skoraði 1 mark og Arnar Jón sem komst ekki á blað.

 

Liðin mættust síðan aftur um miðjan nóvembermánuð. Þar mættu Haukamenn vel stemmdir til leiks eins og flest alla leiki sína á tímabilinu. Haukar voru yfir mest allan leikinn og leiddu í hálfleik 14-11. Það var síðan undir lok leiksins sem Valsmenn náðu að stela stiginu í Hafnarfirðinum og lokatölur 22 – 22. Í liði Hauka voru Arnar Jón, Sigurbergur og Arnar Pétursson allir með 4 mörk. Magnús Sigmundsson stóð og hreyfði sig í markinu allan leikinn og varði heila 18 bolta, vonandi að Maggi verði í svona stuði á sunnudaginn.

 

Það var svo í byrjun desembermánaðar sem rúta af áhorfendum Hauka kom til að hvetja strákana til sigurs í Eimskipsbikarnum. Leikurinn var jafn allan leikinn en Valsmenn voru einu marki yfir í hálfleik 12-11. Og áfram hélt spennan á vellinum og undir lokin var stemmingin og spennan gríðarleg. Valsmenn fóru svo að lokum með sigur að hólmi 23-22. Ekki er hægt að segja að sigur Valsmanna hafi verið öruggur, en sigur er alltaf sigur.

 

Í Deildarbikarnum var því kjörið tækifæri fyrir okkar menn til að hefna ófaranna í Eimskipsbikarnum og gengu Haukastrákarnir á lagið. Leikurinn var frekar jafn eins og allir leikir liðana í vetur en Valsmenn höfðu eins marks forystu í hálfleik 14 – 13. Dramatíkin hélt áfram í þeim síðar en Haukarnir náðu að bíta frá sér og að lokum stóðu þeir uppi sem sigurvegarar í leiknum, 27-26.

 

Rúmlega mánuði síðar mættust þessi lið í fimmta sinn á tímabilinu og það í Vodafonehöllinni í þriðja sinn og nú í N1-deildinni. Valsmenn voru alltaf skrefinu á undan í fyrri hálfleik og leiddu í hálfleik 15 – 12. Í seinni hálfleik komust Haukarnir ekkert nær Valsmönnum og sigur Valsmanna nokkuð þægilegur þegar upp var staðið, 32 – 27.

Markahæstur Hauka í þessum leik var Sigurbergur Sveinsson með 8 mörk og næstur honum komu Gunnar Berg og Andri Stefan með 5 stykki.
Magnús Sigmundsson varði 11 bolta en Gísli 9 bolta, ágætis markvarsla það.

Það má því búast við hörkuleik á Ásvöllum á sunnudaginn og eins og áður segir hvetjum við sem flesta til að mæta á völlinn og hvetja sitt lið. Einnig hvetjum við fólk til að mæta tímanlega, hitta vini og kunningja og spjalla áður en leikurinn hefst.

ÁFRAM HAUKAR!!

– Arnar Daði Arnarsson skrifar