Komnir í sumarfrí – frábæru tímabili lokið

Aron Kristjáns og strákarnir hans eru úr leik (Mynd:sport.is)Haukar eru úr leik í Íslandsmótinu í handbolta eftir tap í gærkvöld fyrir HK í Schenkerhöllinni á Ásvöllum 31-36. HK vann þar með einvígi liðanna 3-0 í leikjum talið og fer því í úrslitaleiki gegn annað hvort Akureyri eða FH um Íslandsmeistaratitilinn.

Gestirnir úr Kópavogi voru einfaldlega sterkari aðilinn mest allan leikinn í gær og höfðu yfirleitt forystu á bilinu 1-4 mörk sem síðan jókst allt upp í 7 mörk undir lok leiks. Stefán Rafn Sigurmannsson og Gylfi Gylfason voru langbestu leikmenn Hauka í leiknum og héldu liðinu inn í leiknum ef svo má segja.

Sóknarleikur Hauka í leiknum var ágætur en hefur þó stundum verið betri, varnarleikurinn var hins vegar mjög slakur allan leikinn og virtist sama hvað reynt var, ekkert gekk upp. Markvarslan var líka lítil miðað við venjulega og skrifast það nú eflaust eitthvað á vörnina. HK voru einfaldlega sterkari í þessum leik sem og öðrum í þessu einvígi og eru því sannarlega verðskuldaðir sigurvegarar þess.

Okkar drengir eru nú hins vegar komnir í snemmbúið sumarfrí en geta virkilega vel við unað eftir tímabilið þar sem þrír titlar komu í hús. Deildarbikarmeistaratitilinn, deildarmeistaratitillinn og síðast en alls ekki síst bikarmeistaratitillinn. Frábær árangur hjá drengjunum og engin ástæða til annars fyrir Haukafólk en að vera stollt af liðinu.

Haukar óska HK að sjálfsögðu til hamingju með áfangann en HK mun nú í fyrsta skipti í sögu félagsins leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.