Knatthús á Ásvöllum

Knatthús á Ásvöllum.
Hönnun á lokastigi, byggingaframkvæmdir framundan.
Nú eru liðin nær 5 ár frá því að viðræður hófust um byggingu knatthúss á Ásvöllum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þörfina fyrir bættri aðstöðu fyrir knattspyrnufólkið okkar sem hefur þurft að búa við algjörlega óviðunandi aðstæður í árafjöld.
Á liðnu ári var hönnun knatthússins boðin út og nú í apríl lýkur fullnaðarhönnun knatthússins. ASK arkitektar eru aðalhönnuðir knatthússins og öflugt hönnunarteymi þeirra hefur unnið frábæra vinnu við hönnun hússins. Skipulagsstofnun gerði kröfu um að atriði sem tengdust knatthúsinu þyrftu að fara í umhverfismat og var VSÓ ráðgjöf fengin til að vinna matsáætlun vegna knatthússins. Það er óhætt að segja að þetta ferli hefur bæði verið langt og strangt, en vinnan hefur gengið vel og þess er að vænta að fljótlega liggi fyrir afstaða Skipulagsstofnunar til byggingarinnar.
Hafnarfjarðarbær samþykkti í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 að leggja 350 milljónir til byggingar knatthússins á árinu 2022 sem og var samþykkt í framkvæmdasamningi að lóðarskiki á svæði Hauka, skilgreindur byggingareitur fyrir allt að 110 íbúðir, skyldi boðinn út. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti síðan á fundi sínum þann 23. mars sl. að úthluta lóðinni til Byggingafélags Gylfa og Gunnars hf. sem greiðir 1.272 milljónir fyrir lóðina. Framlag Hauka, byggingarlóð á íþróttasvæði félagsins, sem seldist á 1.272 milljónir auk 350 milljón króna framlags í fjárhagsáætlun ársins 2022 til byggingar hússins er því gott innlegg í að hraða uppbyggingu knatthússins.
Hafnarfjörður hefur löngum státað af öflugu íþróttastarfi og hafnfirskt íþróttafólk hefur víða gert garðinn frægan.
Það hlýtur því að vera fagnaðarefni allra Hafnfirðinga að haldið sé áfram öflugri uppbyggingu íþróttamannvirkja og skapa þannig enn betri aðstæður til íþróttaiðkunar í ört vaxandi bæjarfélagi.
Magnús Gunnarsson
formaður knattspyrnufélagsins Hauka.