Kirkjuhlaup Hauka í Hafnarfirði annan í jólum 2015

Kirkjuhlaup Hauka fór fram annan í jólum frá Ástjarnarkirkju.  Um tíu leitið fóru hlauparar úr Haukunum og nærliggjandi hlaupahópum  að safnast saman í Ástjarnarkirkju þar sem Sr. Kjartan Jónsson og Haukamenn tóku á móti fólkinu. Fljótlega varð ljóst að mun meiri fjöldi var nú mættur til leiks en árið áður. Á ljósmyndinni sem tekin var af hópunum í upphafi hlaups má telja tæplega 200 hlaupara. Kirkjan var troðfull og meira en það og sr. Kjartan lék á alls oddi. Hann hélt stutta helgistund og blessaði hlaupara. Presti var færð hópmynd frá fyrra ári og síðan var stillt upp fyrir hópmynd þessa árs. Eins og  svo oft áður var það Sigurjón Pétursson sem ljósmyndaði hlaupið.