KA-Haukar

Ekki tókst það fyrir norðan en strákarnir okkar töpuðu í gær 33-29 fyrir KA í öðrum leik liðanna í 4-liða úrslitum. Þetta var hörkuleikur og KA menn sem komnir voru upp að veggnum fræga lögðu allt undir en okkar menn voru ekki alveg tilbúnir í slaginn. Hvorugu liðinu gekk að skora í byrjun en Haukar brutu ísinn og gerðu fyrsta markið og höfðu frumkvæðið framan af fyrri hálfleik. Rétt fyrir leikhlé var jafnt 13-13 en KA skoraði tvö síðustu mörkin og leiddu í hálfleik 15-13. Þegar seinni hálfleikur hófst mátti halda að okkar menn hefðu ekki áttað sig á að leikhléinu væri lokið, heimamenn náðu sjö marka forystu 20-13. Eftir það var á brattann að sækja, strákarnir okkar náðu að minnka í tvo mörk en nær komust þeir ekki og tapið varð staðreynd.

Þriðji og síðasti leikur liðanna verður á Ásvöllum á sunnudaginn kl. 16:15 og þá mæta allir Haukar og þá meinum við ALLIR og styðja strákana áfram. Sýnum norðanmönnum hvernig alvöru stuðningsmenn gera hlutina og hvetjum strákana okkar til sigurs.

Áfram Haukar