KA-Haukar 4-liða úrslit

Frábær sigur 32-35 hjá strákunum okkar á KA á Akureyri í dag í öðrum leik liðanna í 4-liða úrslitum Íslandsmótsins.
Okkar menn byrjuðu af krafti, komust í 2-4 en heimamenn náðu fljótt að jafna 4-4 og komust þá yfir. Annars leiddum við yfirleitt leikinn með 1 til 2 mörkum en KA jafnaði á milli. Í hálfleik var staðan 14-15 fyrir okkur. Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri, við yfirleitt skrefinu á undan, þó náðu heimamenn 1 marks forskoti stöku sinnum. Jafnt var þegar rúmar 10 mínútur voru eftir 22-22 en þá kom góður kafli hjá strákunum okkar og náðu þeir 3ja marka forskoti og hélt maður að þetta væri komið, en heimamenn, sem komnir voru upp að veggnum fræga neituðu að gefast upp og náðu að minnka muninn með góðri hjálp að manni fannst. Þegar venjulegum leiktíma lauk var staðan 27-27 svo framlengja þurfti leikinn.

Í framlengingunni skoruðu strákarnir okkar fyrsta markið og og héldu eins til tveggja marka forystu alla framlenginguna. Undir lokin var eins og allir væru á móti okkur, tveir leikmenn sendir í kælingu og útlitið ekki allt of gott. Markverðirnir okkar sýndu þá til hvers þeir eru inná vellinum og vörðu glæsilega, Birkir Ívar vítakast og Bjarni Frosta hraðaupphlaup og slökktu þar með vonir norðanmanna og jafnvel fleiri að manni virtist, um sigur.

Leikurinn var frábær skemmtun, ljóst að leikmenn beggja liða voru mættir til að gefa allt í leikinn, börðust eins og ljón og ekkert var gefið eftir. Fín stemming var á pöllunum, fjölmargir Haukar skelltu sér norður yfir heiðar og studdu vel við bakið á strákunum okkar og uppskáru glæsilegan sigur Hauka.

Fyrri leikurinn gegn KA fór 33-27 fyrir Haukum svo með þessum sigri tryggðu strákarnir sér sæti í leikjunum um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn gegn ÍR

KA-Haukar 4-liða úrslit

Jæja, þá er því lokið. Eins og alþjóð líklega veit þá töpuðu strákarnir okkar fyrir KA 27-26 fyrir norðan í gærkvöldi og féllu þar með úr keppni. Leikurinn var jafn og spennandi og og skiptust liðin á að hafa forystu í fyrri hálfleik sem lauk með jafntefni 14-14. Í seinni hálfleik náðu norðanmenn yfirhöndinni en okkar stákar virtust alltaf alveg að vera að ná taki á leiknum, en vantaði herslumuninn, vantaði neistann. KA menn virtust hungraðri í sigur. Í raun má segja að úrslitin hafi ráðist í seinni hálfleiknum í fyrsta leiknum á Ásvöllum, þar sem leikur Hauka hrundi gjörsamlega.
Þó strákarnir okkar séu komnir í sumarfrí núna þá er lífið langt frá því að vera búið og þeir koma fílelfdir til leiks næsta haust, því HAUKAR eru alltaf bestir.

Í úrslitarimmunni mætast Valur og KA og óskum við báðum liðum góðs gengis og vonum að leikirnir verði spennandi og skemmtilegir og góð auglýsing fyrir handboltann.