Jafntefli gegn Hetti hjá strákunum

HaukarÞað var svokölluð hátíð í bæ þegar Höttur lék sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla frá upphafi, í heimsókn voru Haukar úr Hafnarfirði. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru mjög góðar og heimamenn fjölmenntu á völlinn.

 

Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt var að liðin ætluðu ekki að taka neina sénsa framan af leik. Þegar leið á fyrri hálfleikinn þá settu heimamenn nokkuð stífa pressu á Haukana án þess að skapa sér afgerandi færi. Bæði lið áttu sæmilega skotsénsa fyrir utan teig en leikurinn var frekar lokaður í fyrri hálfleik. Staðan 0-0 þegar ágætur dómari leiksins, Magnús Þórisson, blés til hálfleiks.

Fólk var rétt búið að kyngja hálfleikskleinum Gunnu handó þegar fyrirliði Hattar Óttar Steinn Magnússon fékk virkilega gott skallafæri eftir hornspyrnu, en Haukarnir björguðu á línu. Hattarmenn voru sterkari framan af síðari hálfleik eða þangað til á 68. mínútu þegar Stefán „Vinstri Sleggja“ Eyjólfsson fékk sitt annað gula spjald og þar af leiðandi rautt.
Þá tóku gestirnir öll völd á vellinum án þess þó að koma blöðrunni í mark heimamanna. Haukarnir fengu þrjú virkilega góð færi á síðustu 15 mínútum leiksins en Hattarar björguðu m.a. þrisvar á línu og eitt sinn eftir að boltinn hafi hafnað í þverslá Hattarmarksins.

Skemmtilegur leikur og vonandi það sem koma skal í heimaleikjum Hattar í sumar.

 

Þessi frétt er fengin að láni frá þeirri frábæru vefsíðu fotbolti.net, kunnum við þeim bestu þakkir fyrir!

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/game.php?action=view_article&id=270#ixzz1vVFJzIcL