Jafntefli í fyrsta leik hjá stelpunum

Þórdís Anna ÁsgeirsdóttirHaukastelpur gerðu hreint út sagt grátlegt jaftefli við ÍR í fyrsta leik sínum í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Til að gera langa sögu stutta náðu okkar stelpur forystu með marki Þórdísar Önnu Ásgeirsdóttur á 27 mínútu og héldu henni allt þar til ÍR-ingar skoruðu jöfnunarmark sitt beint úr aukaspyrnu þegar ekki nema 30 sekúndur lifðu leiks, þ.e. á 94 mínútu.

Stelpurnar náðu í raun ekki að sýna sínar bestu hliðar í gær, stressið var mikið og bar leikur liðsins þess greinilega merki, boltinn gekk lítið á milli manna og var þess í stað mikið í háloftunum og mikið var um návígi og baráttu, nokkuð sem hentar ÍR-liðinu betur en Haukaliðinu.

Ef horft er á björtu hliðarnar er hins vegar afar jákvætt að liðið hafi náð sér í stig á útivelli í fyrsta leik og er engin ástæða til annars en horfa með bjartsýnum augum til sumarsins.