Jafntefli á Hlíðarenda

Í kvöld fóru okkar menn í heimsókn á Hlíðarenda og öttu þar kappi við Valsmenn. Aðstæður til knattleiks voru ekki upp á það besta, rigning og völlurinn blautur og þungur. Þrátt fyrir það sást oft bregða fyrir ágætis spili.

Liðið í kvöld: Jöri; Davíð (Ómar Karl), Darri, Óli Jón, Pétur; Edilon, Kristján Ómar, Goran, Gummi Magg (Zoran); Sævar, Arnar Steinn.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu, enda okkar menn að berjast uppá líf og dauða. Ef eitthvað var vorum við betri aðilinn í fyrri hálfleik, í það minnsta mátti ekki sjá á milli hvort liðið var í neðsta sæti og hvort var í því efsta.
Eins og áður sagði einkenndist leikur liðanna af mikilli baráttu og fá færi sem litu dagsins ljós. Þó náðu heimamenn að skora rétt fyrir leikhlé og leiddu 1-0 þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.

Sama barátta var uppá teningnum í seinni hálfleik, en þó færðu heimamenn sig aðeins meira uppá skaftið. Líkt og í fyrri hálfleik náðu liðin þó vart að skapa sér færi og voru varnir beggja liða nokkuð vel skipulagðar og gáfu fá færi á sér.
Okkar menn spiluðu þó skynsamlega, reyndu að halda boltanum á jörðinni og spila í fæturnar á mönnum enda sást oft á tíðum ágætis spil sem þó náði bara upp að vítateig en þá fjaraði undan því.
U.þ.b. sex mínútum fyrir leikslok kom þó eitt besta færi leiksins þegar varnarmaður Vals ætlaði að skalla boltann aftur á markmanninn, en hitti hann ekki betur en svo að boltinn virtist stefna beina leið í netið þegar markmaðurinn rétt náði að slá hann í horn.
Uppúr horninu náðu okkar menn svo að jafna leikinn. Boltinn barst til Sævars sem var rétt fyrir utan teig, hann gerði það eina rétta í stöðunni, skaut á markið og boltinn söng í markhorninu eftir að hafa átt viðkomu í varnarmanni heimamanna. Staðan 1-1.

Síðustu mínúturnar voru þrungnar spennu þegar bæði lið gerðu sig líkleg til að skora sigurmarkið. Valsmenn fengu þó hættulegasta færið, en Jöri gerði geysilega vel þegar hann varði skalla frá sóknarmanni Valsmanna. Lokatölur sem sagt 1-1, sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins.

Þó svo að Haukar hafi vissulega viljað fá öll stigin þrjú í kvöld þá verður að segjast að það eru virkilega góð úrslit að fara heim af Hlíðarenda með eitt stig í farteskinu. Miðað við baráttuna sem liðið sýndi í þessum leik þá á liðið fullt inni og ef rétt er haldið á málum þá eigum við fulla möguleika á að bjarga sæti okkar í deildinni.

Næsti leikur verður síður en svo auðveldur, þegar við fáum HK í heimsókn á Ásvelli. Ef liðið spilar af sömu ákveðni og í kvöld er enginn vafi á því að sigur vinnst í þeim leik. Leikurinn fer fram mánudagskvöldið 9.ágúst og þangað verða allir að mæta og styðja við liðið.

Áfram Haukar!