Jafntefli á Akureyri í gærkvöldi

Tjörvi Þorgeirsson var valinn maður leiksins í gærHaukastrákarnir fóru í heimsókn til Akureyrar í gærkvöldi og mættu þar toppliði heimamanna. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að Haukaliðið var ekki mætt til leiks til að vera áhorfendur heldur voru strákarnir mjög einbeittir og ákveðnir í sínum aðgerðum. Mikið var skorað í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 18 – 18. Í þeim síðari skoraði hvort lið 11 mörk og niðurstaðan því jafntefli, 29 – 29. Stuðningsmenn Akureyrar völdu menn leiksins, þeir velja bæði hjá sér og aðkomuliðinu. Hjá Haukum var Tjörvi Þorgeirsson valinn en hann átti fínan leik en hjá liði Akureyrar var Bjarni Fritzson valinn maður leiksins. Freyr Brynjarson átti stórgóðan leik hjá Haukum og var markahæstur með 9 mörk. Einnig varði Birkir Ívar á mjög mikilvægum augnablikum í lok leiksins þar á meðal vítakast 20 sekúndum fyrir leikslok og sýndi enn og aftur hvað hann getur verið magnaður í markinu.

Muni Haukar halda áfram að spila af sömu staðfestu og ákveðni í næstu leikjum tel ég ekki nokkra hættu á að þeir nái ekki að vinna sér öruggt sæti í úrslitakeppninni. Næsti leikur er á sunnudaginn kemur og er það heimaleikur gegn Fram sem hefst kl. 15.45.

Hauka TV var á staðnum og sýndi leikinn beint sem fjölmargir stuðningsmenn nýttu sér og mættu meðal annars margir á Ásvelli til að horfa.

Áfram Haukar! 

(Haukamynd Jón Páll)