Jafnt í Grindavik – stelpurnar spila í kvöld

HaukarKarlalið Hauka gerði í gærkvöld jafntefli við Grindvíkinga á heimavelli þeirra Suðurnesjamanna 1-1.Bæði mörk leiksins komu í uppbótartíma og var endirinn því í dramatískara lagi. Mark Hauka skoraði Andri Steinn Birgisson.

Leikurinn var lengst um jafn, heimamenn þó heldur atkvæðameiri, sérstaklega undir lok leiksins þegar þeir fengu nokkur fín færi. Mark Grindavíkur var nokkuð klaufalegt af hálfu Hauka og það á 91. mínutu.

Verður undirritaður að viðurkenna að hann taldi þarna hafa farið möguleikann á stigi. Strákarnir voru á öðru máli, brunuðu upp í sókn og Andri Steinn skoraði stórglæsilegt jöfnunarmark með skoti utan teigs sem fór í slánna og inn á 94. mínútu. Niðurstaðan gott stig á erfiðum útivelli.

Stelpurnar okkar eiga fyrir höndum álíka erfiðan útileik í kvöld uppi á Akranesi gegn ÍA. Skagastúlkur stefna hraðbyri í úrslitakeppnina um laust sæti í úrvalsdeild en okkar stúlkur sigla lygnan sjó rétt fyrir ofan miðja deild og geta notið boltans það sem eftir er sumars. Stelpurnar ætla sér að selja sig dýrt í kvöld í baráttunni um stigin 3 og vonandi text þeim að innbyrða þau, eða í það minnsta eitt.