Hilmar Trausti: Aðallega búinn að vera tana

Hilmar Trausti segist aðallega vera búinn að tana í meiðslunumHilmar Trausti Arnarsson varafyrirliði Hauka hefur verið meiddur í rúmar sjö vikur en hann var borinn af velli í leiknum gegn Stjörnunni í 5.umferð Pepsi-deildar karla.

Hann sleit liðband í ökkla og fékk einnig beinmar og hefur ekki enn náð að jafna sig á þeim meiðslum og það er als ekki víst hvort hann spili eitthvað meir með Haukaliðinu í sumar.

Samt sem áður heyrði Haukar.is í honum og spurðum hann nokkrum velvöldum spurningum.

,,Ég er bæði orðinn þunglyndur og geðveikur á þessari bið. Það er því miður lítið að frétta af meiðslunum, komnar sjö og hálf vika síðan ég lenti í tæklingunni og ég er ekki ennþá byrjaður að geta skokkað sökum verkjar í ökklanum. Hef einungis getað verið að hjóla, synda og hlaupa í vatni. Er s.s. aðallega búinn að vera að tana,“ sagði Hilmar en fólk er farið að ruglast á honnum og Tony Mewejje miðjumanni ÍBV sem er frá Úganda.

,,Til að byrja með horfði ég á liðið á bekknum en það var bara alltof stressandi gat ég til að mynda ekki klárað að horfa á heilan leik og lét mig bara hverfa. Það er erfiðara en fólk heldur að sitja á bekknum og glatað að geta ekki hjálpað til inni á vellinum. En eftir að ég færði mig upp í stúku þá get ég verið aðeins rólegari en þó alveg hrikalega stressaður.
Hef verið að taka þátt í stemmningunni með strákunum í Hersveitinni og haft mjög gaman af því. En það jákvæða er að liðið er alltaf að spila betur og betur og mér sýnist strákarnir vera að fá meira sjálfstraust til að spila okkar bolta, það er láta boltan ganga vel á milli manna svokallaðan sambabolta. Ef strákarnir halda áfram að leggja jafn mikið á sig
og þeir hafa gert hef ég engar áhyggjur af því að sigrarnir fari að detta inn,“ sagði Hilmar sem hvetur fólk til að taka þátt í stuðningnum með Hersveitinni og þá allra síst á sunnudaginn næstkomandi gegn FH.

,,Eins og ég sagði áðan þá finnst mér spilamennskan í fínu lagi þó auðvitað megi alltaf gera betur. Heppnin hefur ekki verið með okkur hingað til en skapar maður sér ekki sína eigin heppni?? Ég spái því að hún verði í okkar liði í seinni umferðinni. Varðandi leikinn á sunnudaginn þá er þetta sá leikur sem mig persónulega hlakkaði mest til að spila þegar ég leit á leikjaprógrammið þegar það kom út í haust. Eftirvæntingin í hópnum hlýtur að vera mikil og allir staðráðnir í að koma í veg fyrir
að fimleikafélagið ræni okkur tvisvar sinnum sama sumarið!! En til að koma í veg fyrir það þurfa allir að eiga góðan leik og spái ég því að fyrsti sigur Hauka komi í Hafnarfirði þetta sumarið,“ sagði Hilmar en hvernig er það, verður hann eitthvað meira með í sumar?

,,Hvort ég spili meira í sumar verður bara að koma í ljós. Ég held að það sé best að láta tíman bara leiða það í ljós. Auðvitað vonast ég til þess að komast í gang sem fyrst en ég veit í rauninni ekkert um það hvort ég verði klár eftir 2 vikur eða 2 mánuði það verður bara að koma í ljós. En á meðan held ég bara mínu striki og æfi eins og ég get og hvet strákanna áfram uppi í stúku,“ sagði Hilmar Trausti að lokum.