Hilmar Geir: Skotinn með aðeins meira í kollinum en Fletcher

Hilmar Geir Eiðsson missti af síðasta leik gegn KR þar sem hann var að taka út leikbann fyrir að hafa verið búinn að fá fjögur gul spjöld í sumar. Hann þurfti því að horfa á leikinn úr stúkunni góðu á Vodafone-vellinum.

Geirfuglinn sem hefur verið sjóðandi heitur á hægri kanti okkar Haukamanna í sumar verður hinsvegar með í næsta leik á sunnudaginn gegn FH á Kaplakrikavellinum.

Hann ásamt öllum strákunum í liðinu bíða með örvæntingu eftir þeim leik og kannski bara allir Hafnfirðingar og aðrir knattspyrnu unnendur hér á land.

,,Það var sjóðandi heitt og alltof stressandi að sitja upp í stúku og horfa á síðasta leik, ég get alveg viðurkennt það. Það er líklega miklu betra að vera í rólegheitunum inn á vellinum sjálfum og taka þátt í leiknum,“ sagði Hilmar Geir aðspurður um það hvernig hafi verið að horfa á leikinn uppúr stúkunni, en hvernig er það öðruvísi en að vera spila leikinn sjálfan?

,,Maður finnur miklu meira fyrir æsingunum og látunum í leikmönnunum þegar maður er inn á vellinum. Það er líka miklu verra að geta ekki tekið þátt og reynt að hafa
áhrif á leikinn.“

Fyrsti sigurinn er ekki enn kominn eftir 12 leiki í deild og einn í bikar, en leikmenn og þjálfarar eru samt sem áður alveg furðurólegir yfir þessu öllu saman,

,,Kemur ekki fyrsti sigurinn „heima“ í Hafnarfirðinum? Ég hef a.m.k. mikla trú á okkur í þessum leik. Við höfum sýnt að önnur lið þurfa að hafa fyrir því að sækja stig gegn okkur.“

Að lokum talaði Hilmar Geir aðeins um Skotann og Spánverjann sem komnir eru til liðs við Hauka. Skotinn er nú þegar kominn með leikheimild og vonum við að Spánverjinn,
verði einnig kominn með leikheimild fyrir FH-leikinn,

,,Þetta virðast topp náungar. Góðir innan sem utan vallar. Skotinn er hinn dökkhærði Darren Fletcher nema hann hefur líklega aðeins meira vit í kollinum. Spánverjinn
er í gulum skóm og var í Barca, lágmark að hann setji 10 mörk í sumar,“
sagði Hilmar Geir að lokum.

Við höldum áfram að heyra í liðsmönnum Hauka í vikunni og fyrir leik enda mikið undir í þessum leik, miklu meira en bara þrjú stig.