Herrakvöld Hauka tókst mjög vel, takk herrar mínir

Talandi um að mæta með stæl!Herrakvöld Hauka var haldið síðastliðið laugardagskvöld. Hátt í 300 manns voru samankomnir til að skemmta sér og styrkja félagið. Í einu orði sagt tókst kvöldið frábærlega. Öll umgjörð var til fyrirmyndar og fyrir það ber að þakka Herrakvöldsnefndinni, Afmælisnefndinni og fleira góðu fólki. „KR-ingurinn“ Guðbrandur Stígur stóð sig eins og hetja í veislustjórninni og maturinn frá Gumma í Laugás var til fyrirmyndar. Tækjamál voru í góðum höndum Ella frá Exton og Júlli í Júlladiskó sá um að halda fólki á dansgólfinu eftir miðnætti en þá gátu konur komið í fjörið. Í þema kvöldsins var vísað til stofnárs Hauka 1931 og mættu margir í klæðnaði sem vísaði til þess tíma, til að mynda mættu margir með flotta hatta og einhverjir keyptu sér hatta á staðnum. Herrarnir á staðnum létu ekki sitt eftir liggja þegar kom að því að kaupa happdrættismiða og einnig gekk treyjuuppboðið mjög vel. Það mátti heyra saumnál detta þegar menn kepptust við að bjóða í treyju Zlatans Ibrahimovic frá AC Milan. Hér verður ekki gefið upp hvað treyjan fór á en hún er í góðum höndum. Guðbrandur Stígur, veislustjóri, sló í gegn á treyjuuppboðinu þegar hann ákvað að bjóða upp KR treyjuna sína, áritaða af sjálfum sér.
Haukar vilja sérstaklega þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóginn, án þeirra væri þetta ekki hægt.

Alls voru 14 happdrættisvinningar í boði og hér að neðan má sjá vinningsnúmerin og hvaða vinningar gengu ekki út:

1.     Þýsk gæðakaffikanna frá KHG        Miði nr. 1655        Gekk ekki út
2.     Hliðartaska frá Hummel                 Miði nr. 0295        OK
3.     Verkfærataska                            Miði nr. 1913        Gekk ekki út
4.     Karfa frá EAS                              Miði nr. 0203        OK
5.     Porsche Design, ilmur og sápa       Miði nr. 2265        OK
6.     Snyrtitaska frá Clarins for Men       Miði nr. 0517        OK
7.     Ferðakolagrill frá Weber               Miði nr. 1317        OK
8.     Castelgarden Hekkklippa, 400W    Miði nr. 0178        OK
9.     Pottjárns útikamína frá Premier     Miði nr. 2656        Ok
10.  Hótelgisting frá Icelandairhotels    Miði nr. 1205        Ok
11.  Castelgarden Hekkklippa, 600W    Miði nr. 1007        Ok
12.  Outback Gasgrill                         Miði nr. 0780        Gekk ekki út
13.  Canon IXUS 105 IS myndavél       Miði nr. 2056        Gekk ekki út
14.  Ferðavinningur frá Icelandair        Miði nr. 1483         Ok

Ósótta vinninga má nálgast á skrifstofu Knattspyrnufélags Hauka að Ásvöllum.

Einn moli að lokum.
Þegar vinningur nr. 5 var dreginn út birtist á stóra tjaldinu upplýsingar um vinninginn:
Porsche Design, 50ml af Porsche Design herralimur og 200 ml. Af Porsche Design hár- og líkamssápu. Vinningshafinn stökk á fætur hinn ánægðasti.
Enginn tók þó eftir þessu stafavíxli nema sá sem er vanur að rýna í smáatriðinn „tollstjórinn“ sjálfur Hörður Davíð Harðarson.

Myndin tengist molanum ekki beint.

Gleðin var allsráðandi á Herrakvöldinu