Heimir Óli Heimisson búinn að gera tveggja ára samning við Hauka

Heimir Óli Heimisson er kominn aftur í Hauka. Mynd: guif.nuHandknattleiksdeild Hauka hefur borist góður liðstyrkur fyrir komandi átök í handboltanum en línumaðurinn sterki, Heimir Óli Heimisson, hefur ákveðið að snúa aftur til Íslands eftir tveggja ára dvöl hjá Guif í Svíþjóð og hefur hann gert tveggja ára samning við Hauka. Það má taka undir orð formanns deildarinnar, Þorgeirs Haraldssonar, að Heimir Óli verði félaginu styrkur bæði innan vallar sem utan. 

Það er mikið gleðiefni að fá Heimi Óla aftur í Hauka en hann stóð sig vel með Guif í sænsku deildinni og var einnig nýverið valinn í æfingahóp íslenska landsliðsins og lék með liðinu æfingaleik gegn Portúgal á dögunum, einnig spilaði Heimir Óli fyrir yngri landslið Íslands. Heimir Óli er uppalinn hjá Haukum og við bjóðum hann hjartanlega velkominn aftur í félagið. 

Áfram Haukar!