Heimir Óli í smá spjalli fyrir stórleikinn gegn FH í kvöld

Heimir Óli í leiknum gegn Astrakhan á dögunumÞað er sannkallaður stórslagur framundan hjá meistaraflokki karla í handbolta í kvöld þegar Patrekur mætir með sitt lið í Kaplakrikann þar sem Hafnarfjarðarslagur verður á boðstólnum klukkan 19:30. Í tilefni af leiknum þá setti heimasíðan sig í samband við einn af nýju mönnunum í liðinu en það er hinn uppaldi Haukamaður Heimir Óli Heimisson. Þetta hafði Heimir Óli að segja:

Heimir Óli núna ertu kominn aftur heim í Hauka. Hvernig leggst það í þig?
„Það leggst bara vel í mig. Gott að vera kominn til baka, enda eru Haukar frábær klúbbur.“

Nú gekk vel á undirbúningstímabiliinu með nokkuð laskað  lið, þið hljótið að vera sáttir með það?
„Já heilt yfir gekk vel hjá okkur, náðum að spila okkur saman en eigum ennþá eftir að bæta ýmsu inn í okkar leik sem er að gerast hægt og rólega“

Ykkur var spáð 2. sæti í spá fyrirliða og forráðamanna fyrir tímabilið. Er það ekki bara nokkuð skiljanlegt miðað við breytingarnar á liðinu?
„Jú ég myndi segja það. Haukum er yfirleitt spáð toppsætunum og þar enda Haukar lang oftast. Við ætlum ekki að hafa neina breytingu á því í vetur.“

Tímabilið byrjaði hjá ykkur nokkuð á undan öðrum liðum vegna Meistarakeppni HSÍ og tveggja leikja í Evrópukeppninni. Gefur það ykkur eitthvað forskot á önnur lið svona í byrjun?
„Já að einhverju leyti, við fengum auðvitað þrjá hörkuleiki við góð lið. Það má því segja að við höfum fengið ákveðið forskot. Þetta snýst þó um það hvernig við mætum í leiki og ef menn eru tilbúnir með hausinn í lagi er það mesta forskotið.“

Sigur í Meistarakeppnni gegn ÍBV á útivelli og svo tap gegn rússneska liðinu Dimano Astrakhan með minnsta mögulega mun. Er það ekki bara ásættanlegt miðað við stöðuna á liðinu í byrjun tímabils?
„Í Meistarakeppni HSÍ unnum við hörkugott lið ÍBV í mjög skemmtilegum og spennandi leik. Í Evrópukeppninni þá brenndum við okkur hins vegar á fyrri leiknum hér heima sem var svo dýrt þegar uppi var staðið. Það er erfitt að kyngja því að þeir hafi slegið okkur út úr keppninni en svona er boltinn stundum.“

Nú eru tvær umferðir búnar af deildinni og Haukar búnir að tapa með einu marki gegn Fram á útivelli og svo vinna Akureyri heima með einu. Sýnir þetta bara ekki það að allir geta unnið alla og þetta verður hörkubarátta í vetur?
„Jú algjörlega. Þetta eru allt hörkulið og mjög skemmtilegt tímabil framundan. Ég vona bara að fólk láti sjá sig á vellinum og styði okkur í baráttunni.“

Næst á dagskrá er nú enginn smá leikur Hafnarfjarðarslagur gegn FH hvernig leggst það í þig og liðið?
„Það leggst bara vel í mig og liðið að spila við FH. Þetta eru skemmtilegir leikir sem allir leikmenn vilja vinna og það er alveg eins með áhorfendur liðanna.“

Þetta hljóta að vera þeir leikir sem þú hefur verið hvað spenntastur fyrir að leika fyrst að þú ákvaðst að koma heim á ný?
„Já það má alveg segja það að þetta séu þeir leikir sem lifa vel í minningunni hjá manni.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?
„Ég vil bara hvetja allt Haukafólk að mæta í rauðu á leikina hjá okkur í vetur og hjálpa okkur að skila sigrum og titlum heim í Schenkerhöllina.“

Heimasíðan þakkar Heimi Óla fyrir spjallið og minnir Haukafólk á að mæta í rauðu í Kaplakrikann í kvöld klukkan 19:30 og styðja Haukamenn til sigurs.