Hefst þá aftur fréttaflutningur

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á innan meistaraflokksins á undanförnum vikum. Það er vonandi að nú þegar rykið virðist vera að setjast geti menn horft saman fram á veginn og byrjað að vinna að því að koma liðinu á rétta braut.

Fyrsti leikur undir stjórn Izudin Daða Dervic var gegn Njarðvíkingum, sem skörtuðu tveimur fyrrverandi liðsmönnum Hauka, þeim Gunnari „Hýenu“ Sveinssyni og Magnúsi „Eldingu“ Ólafssyni.
Fyrri hálfleikur var ágætlega leikinn af okkar mönnum og var mun betra spil innan liðsins en hafði verið í leikjunum á undan. Í seinni hálfleik fjaraði hins vegar undan leik liðsins og þegar upp var staðið höfðu gestirnir skorað tvö mörk gegn einu marki okkar manna.

Um helgina fór svo liðið norður á Húsavík og atti kappi við Völsung. Leikurinn var frekar bragðdaufur og var nokkurt andleysi á liðunum. Sævar Eyjólfsson kom okkar mönnum yfir þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik. Heimamenn náðu að jafna snemma í seinni hálfleik og þar við sat.

Ljóst má vera að menn þurfa að bretta upp ermar í næstu leikjum ef á að takast að koma liðinu á beinu brautina.

Áfram Haukar!