Haukum tókst ekki að landa Lengjubikarnum

Haukar mættu Val í úrslitum Lengjubikarsins í Njarðvíkum í dag. Haukar urðu að sætta sig við þau hlutskipti að vera í tapliðinu í dag en Valur stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið 64-63 í dag. Sigurinn var ekki alveg eins tæpur og lokaúrslitin gefa til kynna því Lele Hardy smellti niður þrist rétt fyrir aftan miðju, spjaldið ofan í, þegar lokaflautan gall.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks en það var þó Valur sem var betri og byrjaði að síga hægt og bítandi framúr. Hallveig Jónsdóttir var atkvæðamikil í byrjun leiks og skoraði fyrstu 5 stig Vals.

Gunnhildur Gunnarsdóttir fagnaði aðeins meira en venja er (þó ekki óhóflega mikið) þegar hún setti niður sniðskot þegar brotið var á henni í einni sókninni, en henni hefur ekki gengið sem skildi í þeim aðstæðum hingað til í Lengjubikarnum.
Haukar skiptu yfir í svæðisvörn í öðrum leikhluta en það dugði ekki til að stoppa Valsstúlkur, þær héldu áfram að auka muninn jafnt og þétt. Hardy og Auður Íris Ólafsdóttir komu á fleygiferð í einu hraðaupphlaupi þar sem Hardy kom upp með boltann en gaf svo á Auði sem fór upp i sniðskotið en mætti þar ofjarli sínum henni Þórunni Bjarnadóttur sem stökk upp með Auði og greip það föstum tökum um boltann að Auður hrundi beint á bakið. Þetta var mjög lýsandi fyrir leik Hauka á þessu tímabili þar sem að ekkert gekk hjá þeim, þegar þær áttu góð færi þá rúllaði boltinn upp úr hringnum eða skoppaði af. Haukar voru með skelfilega 24% skotnýtingu í hálfleik, á meðan að Valur var með 58%.
Valur með örugga 42-23 forystu í hálfleik og Haukastúlkur ekki líklegar til átaka.

En eitthvað hefur Bjarni Magnússon lesið vel yfir sýnum stúlkum því þær mættu eins og óðir hundar til leiks í seinni hálfleik og létu Val aldeilis finna fyrir sér. Þær spiluði gríðarlega harða vörn og stálu boltanum 10 sinnum í þriðja leikhlutanum einum og sér. Ágúst Sigurður Björgvinsson, þjálfari Vals, neyddist til að taka leikhlé þegar Haukar voru búnar að yfirspila Val 11-2 til að reyna koma sýnum konum í gírinn. Það gekk ekki upp hjá honum og Haukar unnu leikhlutann 20-6 og þetta var orðinn leikur fyrir loka leikhlutann, aðeins fimm stiga munur eða 48-43 fyrir Val.
Lovísa Björt Henningsdóttir setti svo niður þrist og minnkaði muninn niður í aðeins 1 stig snemma í fjórða leikhlutanum. En það tekur mikla orku að ná upp svona miklum mun og virtust Haukastúlkur vera búnar með eldsneytið þar sem Valur komst 11 stigum yfir á kafla sem Jaleesa Butler var áberandi í sókn sem vörn þar sem að hún varði meðal annars skot hjá Hardy, en hún var búin að vera nánast ósýnileg hingað til í leiknum. Haukar voru komnar í villuvandræði og Valur komnar í skotrétt með 5 mínútur eftir af leiknum. En svo kom aftur kraftur í stelpurnar og þær skoruðu 8-0 á 90 sek.
Það var því komin aftur gríðarleg spenna í leikinn þegar aðeins 2 mínútur voru eftir. En það gekk því miður ekki upp hjá stelpunum að sinni þar sem þær misstu Val 5 stigum frá sér þegar aðeins 12 sek. voru eftir. Bæði lið fóru á vítalínuna í næstu tveimur sóknum og Valur voru með 4 stiga forystu þegar 2.5 sek. voru eftir af leiknum. Hardy tókst að komast rétt fyrir aftan miðju og lét boltan fljúga sem small í spjaldið og ofan í er klukkan gall.

Þannig frekar svekkjandi tap fyrir Haukastúlkur þar sem þær komu svo vel til baka í seinni hálfleik en segja má að það hafi verið skotnýtingin í fyrri hálfleik sem hafi orðið þeim að falli.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun um leikinn á Karfan.is 

Umfjöllun um leikinn á Vísir.is