Haukastrákar í Höllinni

Haukar bjóða alla Hafnfirðinga velkomna í Íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum næsta laugardag. Þar ætlum við öll að eiga ánægjulega stund og undirbúa okkur fyrir úrslitaleikinn í SS-bikarkeppninni, en leikurinn hefst klukkan 16:30. Húsið opnar klukkan 12:00 og verður ýmislegt til skemmtunar. Má nefna að boðið verður upp á andlitsmálun og veifugerð. Einnig hefur Æskulýðs- og tómstundaráð Hafnarfjarðar skipulagt daginn með okkur. Rauði tveggja hæða strætisvagninn frá KFUM og KFUK verður á staðnum, töframaður mun koma í heimsókn, öllum verður boðið upp á SS-pylsur og íþróttasalurinn verður einnig opinn fyrir börnin til að leika sér.

Þegar líður að leiknum verður boðið upp á strætivagna til að flytja alla í Laugardalshöllina, þar sem allir munu að sjálfsögðu styðja Haukana til sigurs. Eftir leik verða síðan strætisvagnarnir aftur mættir og allir geta farið aftur á Ásvelli. Frítt er fyrir alla í strætó.

Sérstök athygli er vakin á því að seldir verða Haukabolir og húfur fyrir leikinn gegn vægu gjaldi. Markmiðið er að lita Höllina rauða og koma aftur heim með bikarinn.