Haukastelpur vinna fjórða leikinn í röð

Haukastelpur tóku á móti vinum okkar úr Snæfelli í kvöld. Haukastelpur sýndu gestum sýnum enga gestrisni fyrr en eftir leik því Haukar byrjuðu leikinn með miklum látum og skoruðu fyrstu 12 stig leiksins á innan við 2 mínútum þar af Íris Sverrisdóttir með 2 þrista.

Ingaþór þjálfara Snæfells leist greinilega ekkert á blikuna og tók leikhlé strax eftir tvær mínútur. Snæfells stelpur náðu síðan að hanga í Haukum til loka fyrsta leikhluta þegar staðan var 26-14 fyrir Hauka.

Haukastelpur voru greinilega mun strekari í öðrum leikhluta og var svæðisvörn Hauka mjög sterk og var nánast eingöngu erlendi leikmaður Snæfells Kieraah Marlow sem náði að skora hjá Haukum í öðrum leikhluta. Haukar spiluð fína sókn þar sem boltinn gekk vel manna á milli sem endaði með góðum skotum. Í hálfleik var staðan 46-30 fyrir Hauka og hefði sá munur hæglega getað verið meiri svo mikill var munurinn á leik liðanna.

Lítið var skorað í þriðja leikhluta hjá báðum liðum sem einkenndist nokkuð af því að Snæfellsliðið reyndi að koma til baka með betri vörn en í fyrsta leikhluta sem varð til þess að Haukar voru að skjóta oft í erfiðari færum og hittu ekki. Á hinn boginn gekk hvorki né rak í sókn Snæfells gegn firnasterkri vörn Hauka þar sem Jence okkar Rhoads hélt besta og reynslumesta leiikmanna Snæfells Hildi Sigurðar algerlega út úr leiknum en Hildur skoraði ekki nema 2 stig í leiknum. Þá vor Sara Pálma og Hope Elam að spila góða vörn á Kieraah Marlow hjá Snæfelli.

Í fjórða leikhluta stungu síðan Haukastelpur algerlega af og var sá leikhluti aldrei spennandi. Um miðjan leikhlutan tóku okkar ungu efnillegu leikmenn Auður, Ina, Inga Sif, Kristín Fjóla og Sólrún við keflinu og kláruðu leikinn með stæl fyrir Hauka sem unnu mjög öruggan sigur 80-55.

Haukar voru með sigrinum í kvöld að vinna sinn fjórða sigur í röð og fimmta sigurinn að síðustu sex leikjum og er liðið nú komið á mikið skrið undir stjórn Bjarna Magnússonar þjálfara sem greinilega er gera mjög góða hluti með liðið.

Sigurinn í kvöld var sigur liðsheildarinnar þar sem allar Haukastelpur voru að spila mjög vel en liðinu stjórnar inná vellinum Jence Rhoads sem átti enn einn stórleikinn með 20 stig, 5 fráköst og 10 stoðsendingar. Klárlega er Jence ein af bestu erlendu leikmönnunum sem spilað hafa fyrir Hauka og er gaman að sjá hve vel hún spilar fyrir liðið og ávallt með bros á vör. 

Hope Elam átti einnig ágætan leik en hún er að falla betur og betur inn í leik liðsins og er farinn að spila meira fyrir liðið nú en í fyrstu leikjum. Hún styrkir liðið vel undir körfunni er að taka mörg fráköst í hverjum leik.

Íris Sverris átti enn einn stórleikinn fyrir Hauka en hún hefur verið hreint sjóðandi heit undanfarið og sett niður hvern þristinn á eftir öðrum. Íris var í kvöld með 5 þrista úr sjö tilraunum sem er yfir 70% hittni. Íris endaði í kvöld með 19 stig og 9 fráköstog auk þess að spila góða vörn.

Þær stöllur Guðrún Ámunda og Sara Pálma áttu góðan leik í kvöld en þær hafa báðar verið að stíga upp í síðustu leikjum. Mikil barátta þeirra er að skila sér vel út til okkar yngri leikmanna.Guðrún var auk þess að spilagóða vörn eins og ávallt með góða hittni í kvöld og skilði 11 stigum í hús.

Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Auður Íris Ólafsdóttir spiluð einnig vel en þær hafa í vetur fengið fleiri tækifæri með leiðinu og eru að sýna oft mjög góða leiki og eru mjög vaxandi meistaraflokksleikmenn þó ungar séu að árum. Margrét hefur hitt mun betur í leikjum Hauka í vetur en hun gerði í kvöld en í kvöld bætti Auður það upp með 100% nýtingu úr þriggja stiga skotum sínum. Þær voru báðar að spila góða vörn og tóku saman 7 fráköst í leiknum.

Áhorfendur voru ekki margir í kvöld en þeir studdu vel við bakið á Hauka stelpunum.

Iceland Expressdeildin er nú mjög jöfn en Haukastelpur eru nú komnar upp í 3-4 sæti deildarinnar og eru jafnar KR þegar þetta er skrifað. Liðin eru að skiptast á að vinna hvert annað. Með sama áframhaldi hjá Hauka stelpum þá geta þær hæglega orðið í einu af 4 efstu sætum deildarinnar í vor sem gefur rétt til að spila í úrslitakeppninni.

Umfjöllun um leikinn má sjá á karfan.is

Umfjöllun má einnig sjá á Mbl.is