Haukastelpur með öruggan sigur á Val

Haukastelpur unnu í kvöld öruggan átján stiga sigur á Val, 84-66, í Shenkerhöllinn að Ásvöllum í kvöld. Með sigrinum endurheimti liðið þriðja sætið í Iceland Express deild kvenna í körfubolta og náðu 6 stiga forskoti á Snæfell sem er í 5 sæti.

Leikurinn í kvöld var jafn fyrstu 30 mínúturnar þó Haukastelpur væru sterkari og sýndu meiri breidd. Bjarni þjálfari hafði notað 10 leikmenn í fyrri hálfleik. Haukastelpur settu síðan í fluggír í fjórða leikhlutanum og stungu Val af en þær unnu 4 leikhluta með 19 stiga mun, 28-9.

Haukaliðið átti allt góðan leik þar sem Íris Sverrisdóttir og Margrét Rósa Hálfdanardóttir áttu sóknarlega báðar frábæran leik í kvöld. Íris skoraði 24 stig og Margrét Rósa var með 19 stig. Íris setti liðið í fluggírin í fjórða leikhluta með 3 þriggja stiga körfum í röð sem Margrét Rósa og fleiri leikmenn kláruðu síðan.

Jence Ann Rhoads átti enn einn klassa leikinn fyrir Hauka og stýrði liðinu eins og herforingi. Hún var í kvöld mjög nálægt þrefaldri tvennu var með 21 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst. 

Hope Elam sem snéri sig illa á æfingu á mánudag og spilaði leikinn í kvöld sárþjáð en skilaði þrátt fyrir það góðri varnar vinnu skoraði 12 stig og tók 11 fráköst. 

Fyrirliðinn Guðrún Ámundadóttir  dreyf liðið áfram í kvöld eins og sönnum fyrirliða sæmir, spilaði frábæra vörn og hirti 10 fráköst.

Haldi Haukaliðið áfram þessum kraftmikla leik sem þær sýndu þegar á þurfti að halda í 4.leikhluta þá geta stuðningsmenn Hauka farið að horfa fram á spennandi leiki í lok tímabilsins þegar í úrslitakeppnina kemur!