Haukastelpur í úrslit

Það má með sanni segja að sópurinn hafi farið á loft í Keflavík í kvöld því Haukar unnu stór sigur á liði Keflavíkur og sópaði liðinu 3-0 út úr undanúrslitum. Haukar spiluðu án Írisar Sverrisdóttur sem og Guðrúnar Ámundadóttur og tóku því aðrir leikmenn stærra hlutverk og skiluðu sínu afar vel.

Leikurinn fór jafnt af stað en í öðrum leikhluta náðu Haukar góðum 0-17 spretti og leiddi með rúmlega 20 stigum í hálfleik. Keflavík byrjaði betur í seinni hálfleik en Haukar slökuðu ekkert á og juku muninn í rúm 30 stig. Bjarni Magnússon þjálfari Hauka skipti lykilmönnum út af í lok leiks og náðu Keflvíkingar að fegra stöðuna örlítið en Haukar sigruðu á endanum afgerandi 52-75

Jence Rhoads var allt í öllu í leik Hauka og endaði leikinn með 31 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. TJ bætti við 16 stigum og 15 fráköstum og Gunnhildur Gunnarsdóttir gerði 12 stig.

Haukar mæta því annað hvort Njarðvík eða Snæfelli í úrslitum en þar standa leikar 2-1, Njarðvík í vil, í einvígi þeirra.