Haukastúlkur Vildbjerg-cup meistarar

Það voru hressar og spenntar Haukastelpur sem lögðu land undir fót og héldu á vit ævintýranna undir lok júlímánaðar. Ferðinni var heitið til Danmerkur til að taka þátt í fjölmennu, alþjóðlegu knattspyrnumóti í íþróttabænum Vildbjerg á Jótlandi. Haukar tefldu fram tveimur liðum á mótinu, U-15 ára liði og U-17 ára liði. Bæði lið stóðu sig mjög vel í heildina. 

Yngra liðið átti þó á brattann að sækja og fór svo að stelpurnar féllu úr keppni í 4 liða úrslitum B deildar. Eldra liðið vann alla sína leiki í undanriðli og undanúrslitum nokkuð örugglega. Úrslitaleikurinn gegn Þór frá Akureyri var hins vegar æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins en það voru Haukastelpur sem hömpuðu að lokum Vildbjerg-cup bikarnum við mikinn fögnuð stuðningsmanna. Ferðin var í alla staði vel heppnuð og lærdómsrík og ekki spurning um að það var liðsheildin öll sem skóp sigurinn.