Haukastúlkur fara í jólafrí með sigur í farteskinu

Haukar fengu Grindavík í heimsókn í gærkvöldi í 14. umferð Dominosdeildar kvenna þar sem þær sigruðu 73-64. Þetta er þar með þriðji sigurinn í seinustu fjórum deildarleikjum og stelpurnar á góðri siglingu og í baráttu við Val um 4. sætið í deildinni. Haukastúlkur fara því í jólafrí í góðu skapi en þær töpuðu gegn KR, 83-67, í DHL-Höllinni í leiknum þar á undan.

Siarre Evans átti enn einn stórleikinn á móti Grindavík og var með stórkostlega þrefalda tvennu eða 15 stig, 20 fráköst, 10 stoðsendingar og svo bætti hún við 5 stolnum boltum líka.

Dagbjört Samúelsdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir voru einnig sjóðheitar í leiknum. Dagbjört átti þriðja leikhlutann og skoraði í honum 11 stig og endaði leikinn stigahæst hjá Haukum með 19 stig og þar af þrjár þriggjastigakörfur. Lovísa átti hinsvegar fjórða leikhlutann þar sem að hún hélt Haukum á floti þegar þær áttu í erfiðleikum með pressuvörn Grindavíkur og skoraði 10 stig og tók 4 sóknarfráköst.

Í leiknum á móti KR þá voru stelpurnar inn í leiknum þangað til í seinni hluta þriðja leikhluta þegar KR yfirspiluðu þær 11-2. Haukar komust ekki inn í leikinn eftir það og eftirleikurinn auðveldur fyrir KR.

Í þeim leik voru Siarre Evans og Margrét Rósa Hálfdanardótti atkvæðamestar með 19 stig og 4 stoðsendingar hvor, en að auki var Evans með 15 fráköst og Margrét 5 fráköst.

Þá átti María Lind Sigurðardóttir sinn besta leik á tímabilinu með 10 stig og 4 fráköst.

Nánari umfjöllun um leikinn á móti Grindavík á karfan.is

Tölfræði úr leiknum á móti KR hjá KKÍ

Leikbrot.is tók saman myndbrot úr leiknum á móti KR