Haukarnir 2001

Í árslok er ekki úr vegi að rifja upp nokkra minnisstæða atburði hjá meistaraflokkunum frá árinu sem er að líða.

4-liða úrslit í SS-bikarnum voru í byrjun febrúar. Þar unnu stelpurnar FH og strákarnir Selfoss og komust því bæði liðin í Bikarúrslitaleikina, sem fram fóru í Höllinni þann 17. febrúar. Þar urðu stelpurnar að sætta sig við tap fyrir ÍBV eftir framlengdan leik. Strákarnir unnu HK og voru krýndir BIKARMEISTARAR 2001.

Á Íslandsmótinu stóðu stelpurnar sig frábærlega og eftir sigur á FH á Ásvöllum hinn 3. mars var ljóst að þær voru DEILDARMEISTARAR 2001. Í úrslitakeppninni sýndu þær enn frekar hversu megnugar þær eru og unnu alla sína leiki með yfirburðum. Í 8-liða úrslitum unnu þær Val 2-0, í 4-liða úrslitum unnu þær Stjörnuna 2-0 og í úrslitum unnu þær ÍBV 3-0 og á Ásvöllum þann 7. apríl voru þær krýndar ÍSLANDSMEISTARAR 2001 við mikinn fögnuð og gleði allra Haukamanna.

Strákanir voru á toppnum í deildinni lengst framan af en slökuðu aðeins á í lokin og enduðu í 3ja sæti. Í úrslitakeppninni unnu þeir FH 2-0 í 8-liða úrslitum, Val 2-1 í baráttuleikjum í 4-liða úrslitum og síðan KA 3-2 í hörku úrslitarimmu. Þar var hart barist og allt lagt undir en okkar strákar höfðu það í lokin og þann 5. maí á Akureyri eftir fimmta leikinn voru þeir krýndir ÍSLANDSMEISTARAR 2001 við mikinn fögnuð þeirra fjölmörgu Hauka sem lögðu leið sína norður yfir heiðar og eins þeirra sem sátu heima á Ásvöllum og fögnuðu þar.

Ekki má gleyma þátttöku strákanna í Evrópukeppninni. Þeir spiluðu 4 umferðir haustið 2000 og í febrúar 2001 slógu þeir Sporting Lissabon út í 8-liða úrslitum. Fyrri leikurinn var í Lissabon og fóru hátt í 200 Haukar í hópferð til Portúgal. Þetta var frábær ferð, þar sem allir skemmtu sér hið besta og strákarnir fengu dyggan stuðning í leiknum sem lauk með jafntefli. Stuðningsmenn Hauka áttu pallana og rúlluðu yfir portúgölsku áhorfendurna sem áttu ekki roð í hafnfirsku víkingana. Seinni leikinn unnu svo strákarnir okkar á Ásvöllum og voru þar með komnir í 4-liða úrslit. Þar töpuðu þeir fyrir Metkovic Jambo sem voru þáverandi Evrópumeistarar. Í þessari Evrópukeppni spiluðu strákarnir 6 umferðir eða 12 erfiða leiki, sem skilaði 3-4 sæti í Evrópukeppninni. Frábær árangur það.

Það er ekki hægt að segja annað en fyrsta keppnistímabilið okkar á Ásvöllum hafi endað vel, með stórglæsilegum árangri. Ekki amarleg gjöf til félagsins á afmælisári en félagið okkar HAUKAR átti 70 ára afmæli þann 12. apríl. Fjórir stórir titlar í hús – Frábær árangur hjá mfl.karla og kvenna.

Tímabilið í haust byrjað hjá strákunum með Sjallamótinu á Akureyri, en þar lentu þeir í öðru sæti. Bæði liðin tóku síðan þátt í Reykjavíkur-Open mótinu, þar sem stelpurnar lentu í öðru sæti en strákarnir unnu og eru Reykjavíkur-Open meistrarar 2001. Bæði liðin spiluðu síðan um titilinn meistari meistaranna. Strákanir unnu KA og stelpurnar ÍBV og eru því bæði liðin MEISTARI MEISTARANNA 2001.

Í haust hófu strákarnir á ný þátttöku í Evrópukeppninni. Þeir slógu út Eynatten frá Hollandi og Kolporter frá Póllandi og í þriðju umferð lentu þeir á móti hinu magnaða, gríðarsterka og heimsklassa liði Barcelona frá Spáni, margföldum Evrópumeisturum.. Fyrri leikurinn tapaðist stórt úti en í heimaleiknum á Ásvöllum sýndu okkar strákar að árangur þeirra undanfarið er engin tilviljun og Börsungar unnu aðeins með 2 mörkum og má segja að þeir hafi verið heppnir að vinna leikinn. Þar með lauk þátttöku Hauka í Evrópukeppninni þetta tímabil og geta þeir verið stoltir af árangrinum.

Íslandsmótið/Essó-deildin hófst í lok september hjá strákunum. Þeir byrjuðu mótið með stæl og hafa ekki tapað leik, gert eitt jafntefli og eru með 25 stig eftir 13 leiki. Tróna nú á toppi deildarinnar þegar mótið er hálfnað og ætla sér örugglega ekki að gefa eftir á nýju ári.

Hjá stelpunum hófst Íslandsmótið/Essó-deildin í byrjun október. Þær byrjuðu mótið mjög vel, síðan kom smá bakslag en þær réttu úr sér og hafa unnið 6 af 8 leikjum og eru með 12 stig. Deildin er hálfnuð og eru þær efstar, sem sé á toppnum og ætla líkt og strákarnir örugglega ekki að gefa eftir á nýju ári.

Í SS-bikarnum eru bæði liðin komin eins langt og hægt er á þessari stundu. Strákarnir eru komnir í úrslitaleikinn sem verður í febrúar á næsta ári. Stelpurnar eru komnar í 4-liða úrslit og verða þeir leikir ekki fyrr en í janúar á næsta ári.

Bæði liðin okkar, þ.e. meistaraflokkur karla og meistaraflokkur kvenna eru skipuð frábærum leikmönnum og þjálfurum og öll leggja þau mikið á sig til að ná árangri, bæði fyrir sjálfa sig og ekki síður fyrir félagið sitt Haukana.
Margir þessara leikmanna hafa hlotið þann heiður að fá að spila í landsliði Íslands. Nú milli jóla og nýárs eru 5 Haukamenn (Aron, Bjarni, Einar Örn, Halldór og Rúnar) með Landsliði Íslands í Póllandi og 2 Haukamenn (Andri og Ásgeir Örn) með Landsliði drengja (1984) á móti í Þýskalandi. Þá var Jón Karl í æfingahópnum fyrir jól og Magnús Sigmunds lék með landsliðinu í haust.
Úr meistarafl. kvenna hafa Harpa, Hanna, Inga Fríða, Thelma,Brynja, Nína, Sonja, Heiða og Jenný allar leikið með Landsliði Íslands.

Við Haukar getum svo sannarlega verið stolt af meistaraflokkunum okkar, þeir hafa náð frábærum árangri inná vellinum og eru fyrirmyndir og stjörnur í augum yngri iðkenda og eins þeirra sem eldri eru.

Þó markmið keppnisíþrótta eins og hjá meistaraflokkunum sé alltaf að sigra, þá má ekki gleyma öllu hinu eins og félagsandanum, samkendinni og íþróttaandanum, það að taka þátt í leiknum er stór hluti af öllu saman. Glæstir sigrar eru frábærir og menn gleyma öllu erfiði, svita og tárum sem á undan eru gengin, þegar titill er í höfn. En glæstir sigrar væru lítils virði ef við ættum ekki einhverja til að fagna þeim með og það eigum við svo sannarlega í Haukafjölskyldunni.

Megi farsæld og friður fylgja okkur Haukum inní nýtt ár.