Haukar – Víkingur í N1-deild karla á morgun

HaukarÁ morgun leika Haukar gegn Víking í N1-deild karla en leikurinn fer fram á Ásvöllum og hefst klukkan 19:30. Þetta er eini leikurinn í N1-deildinni á morgun, en um er að ræða frestaðan leik vegna þátttöku Hauka í Evrópukeppninni.

Haukar eru eins og flest allir vita á toppi deildarinnar 22 stig eftir nokkuð þæginlegan sigur á Valsmönnum síðasta laugardag, 25-22 á heimavelli. 

Víkingar eru aftur á móti í neðsta sæti deildarinnar með einungis 5 stig, en þeir byrjuðu þetta ár með tveimur góðum sigrum, gegn Akureyri og HK en hafa svo tapað síðustu tveimur leikjum gegn Stjörnunni með einu marki og Akureyri síðast með fimm mörkum. Það bendir því allt til þess að Víkingar muni leika í 1.deildinni á næsta ári.

Haukaliðið hefur verið á fljúgandi siglingum síðustu mánuði og lítið er eftir að mótinu eða einungis sex leikir og einungis þrír heimaleikir og því hvetjum við Haukafólk til að fjölmenna á leikinn á morgun og hvetja strákana áfram enda ætlum við að sjálfsögðu að taka alla þá titla sem við eigum enn möguleika að ná í og að sjálfsögðu þurfa strákarnir hjálp frá stuðningsmönnunum.

Það verður svo viku frí á deildinni, en næsti leikur er svo ekki fyrr en fimmtudaginn 5.mars en þá leikur liðið útileik gegn Fram.