Haukar styrktu stöðu sína á toppi N1 deildarinnar

Gísli Guðmundsson átti stórleikÍ kvöld fór einn leikur fram í N1 deild karla en þá heimsóttu Víkingar, neðsta lið deildarinnar, Haukamenn á Ásvelli. Haukar voru fyrir leikinn efsta lið deildarinnar.

Haukamenn byrjuðu betur og náðu strax ágætu forskoti sem þeir héldu til loka leiksins. Í hálfleik var staðan 15 – 10 en þegar flautan gall og leiknum lauk var staðan 31 – 26.

Haukamenn því komnir með þriggja stiga forskot á toppi N1 deildar karla þegar aðeins 5 leikir eru eftir af mótinu. 

 

Haukamenn skoruðu fyrsta mark leiksins í kvöld. Víkingar jöfnuðu en Haukamenn náðu fljótlega að hrista Víkinga af sér. Þeir voru komnir með 5 marka forskot eftir 20 mínútna leik, 11 – 6. Staðan í hálfleik var svo 15 – 10 og Haukamenn mun ferskari. Strax í fyrri hálfleik leyfði Aron, þjálfari Hauka, ungum strákum að spreyta sig og stóðu þeir sig með sóma.

 

Víkingar komu mun ferskari inn í síðari hálfleik en þeir voru í þeim fyrri. Haukamenn héldu forskotinu allan tímann og fór munurinn aldrei undir 4 mörk, 29 – 25. Leikurinn endaði svo með fimm marka sigri Haukamanna 31 – 26.

Markahæstur í liði Hauka var Sigurbergur Sveinsson með 10 mörk en Kári Kristján Kristjánsson skoraði 7 mörk. Gísli Guðmundsson stóð sig frábærlega í marki Haukamanna og varði 22 skot.

Í liði Víkinga voru það þeir Davíð Georgsson og Sveinn Þorgeirsson sem voru markahæstir með 7 mörk.

Næsti leikur Haukastrákanna er fimmtudaginn 5. mars þegar þeir heimsækja Framara í Safamýrina.