Haukar steinlágu gegn Fjölni

Haukar

Arnar Daði Arnarsson skrifar: 

Það var blíðskaparveður í Grafarvoginum í gærkvöld þegar toppslagur 1.deildar karla fór fram, leikur Fjölnis og Hauka. Fyrir leikinn voru Haukar með einu stigi fleira en Fjölnir í 1. – 2.sæti deildarinnar á meðan Fjölnir voru í því þriðja. 

Segja mætti að Haukar hafi aldrei séð til sólar í kvöld á meðan Fjölnismenn léku listir sínar á iðargrænum vellinum og létu sólina leika við sig á meðan. Fjölnismenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir einungis fjögurra mínútna gamlann leik voru heimamenn komnir yfir. 

Bjarni Gunnarsson geystist upp hægri vænginn, Benis Krasniqi varnarmaður Hauka leyfði honum að vera með boltann í full miklu rólegheitum og það nýtti Bjarni sér vel, inn í teig Hauka var hann kominn, lagði boltann fyrir sig á vinstri og smellti boltanum í fjærhonið. Laglega gert hjá Bjarna. Hann var síðan stuttu seinna stuttu frá því að koma Fjölni í 2-0, en eftir barning í teignum teygði hann sig í boltann, og þaðan fór boltinn í stöngina. 

Haukamenn áttu síðan sinn besta kafla í leiknum um miðbik fyrri hálfleiks og hættulegasta færi Hauka átti Hilmar Trausti Arnarsson. Eftir góða sendingu frá Björgvini Stefánssyni virtist Hilmar Trausti vera sloppinn í gegn, en boltinn datt einum of langt frá honum og þurfti hann því að teygja sig í boltann þegar hann reyndi að ná skoti að markinu, skotið þar af leiðandi lélegt og engin hætta skapaðist. 

Staðan í hálfleik, sanngjörn 1-0. Á 48.mínútu var Bjarni Gunnarsson sem og Daði Lárusson markvörður Hauka klaufar. Löng sending fram völlinn, Daði Lárusson hleypur úr markinu og ætlar að hreinsa frá, en Daði hitti ekki boltann og fékk hann undir sig, en svo virðist sem Bjarni hafi tekið sér blund í hálfleik og ekki verið vaknaður, því hann var á þessum tímapunkti sloppinn einn í gegn, en tók sér of langan tíma í að athafna sig og varnarmenn Hauka bægjuðu hættunni frá. 

Á 65.mínútu juku heimamenn forskotið, Sigurbjörn Örn Hreiðarsson missti boltann á miðjunni klaufalega, Fjölnismenn geystust upp, Hilmar Trausti náði að tækla boltann af leikmanni Fjölnis, en betur gekk það ekki en svo, að boltinn fór beint í fætur Pablo Punyed vinstri bakvarðar Fjölnis, sem skyndilega var sloppinn einn í gegn og renndi boltanum í fjærhornið eins og sannur framherji. 

Fjölnismenn gerðu síðan útum leikinn fimm mínútum síðar, er Illugi Þór Gunnarsson skoraði úr miklu öryggi úr vítaspyrnu sem var réttilega dæmd eftir klaufalegt brot. Stuttu síðar átti Þórir Guðjónsson ágæta skot tilraun, sem Daði varði. 

Önnur vítaspyrna var dæmd 10 mínútum síðar, eða á 80.mínútu. Markaskorarinn, Pablo Punyed braut þá klaufalega á Magnúsi Páli Gunnarssyni innan teigs, Hilmar Trausti Arnarsson fyrirliði Hauka fór á punktinn en slök spyrna hans var varin af Hrafni Davíðssyni. Vítaspyrnan endurspeglaði svolítið spilamennska Hauka í leiknum. 

Davíð Þór Rúnarsson, 34 ára sóknarmaður Fjölnis kom inn á í sínu fyrsta leik fyrir Fjölni í sumar á 82.mínútu, hann virðist vera í fanta formi og átti fínustu tilraun á 88.mínútu, skot réttfyrir utan teig, en boltinn rétt framhjá. 

Fjórða og síðasta mark leiksins kom síðan á 89.mínútu, Marinó Þór Jakobsson átti þá skot fyrir utan teig sem fór í varnarmann Hauka og þaðan í bláhornið, nánast óverjandi fyrir Daða Lárusson, heppnis-stimpill á þessu marki og spurning hvort þetta sé það sem koma skal fyrir Fjölni í sumar, meistara-heppni? 

Síðasta færið átti síðan vinstri bakvörðurinn Pablo Punyed en skot hans úr fínu færi var varið af Daða í markinu. 4-0 sigur Fjölnis staðreynd. Fjölnismenn hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk og Haukarnir líklegast einhver ef farið er í þá sálma, en það er ekki spurt um það í knattspyrnunni. 

Fjölnisliðið lítur virkilega vel út, að skora fjögur mörk gegn liðinu sem hafði fengið á sig sjö mörk í 10 leikjum, hlýtur að gefa góðfyrir heit fyrir komandi leiki. Haukarnir hafa hinsvegar nú, átt þrjá virkilega dapra leiki í röð en þó innbyrgt fjögur stig en með svona frammistöðu verður erfitt fyrir þá að halda ívið toppliðin.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=129953#ixzz20yM6fwvN