Haukar stóðust áhlaupið

Eftir miður góða niðurstöðu úr leik Hauka og Snæfells í Domino‘s deild kvenna var komið að strákunum okkar að berja á karlaliði Snæfells. Fyrir leikinn höfðu Haukar ekki unnið deildarleik gegn Snæfell á Ásvöllum síðan 2003 og kominn tími til að hleypa ekki Snæfellingum burt með enn einn sigurinn.

Jón Ólafur Jónsson (Nonni Mæju) opnaði skorkortið með þriggja stiga körfu fyrir Snæfell sem byrjuðu mun betur í leiknum. Snæfellingar leiddu megnið af fyrsta leikhluta en undir lok hans breyttu Haukar stöðunni úr 14-17 í 21-17 áður en leikhlutinn kláraðist.

Vörn Hauka var kominn á gott skrið og áttu Snæfellingar í miklu basli með að finna leið að körfu Hauka. Haukar leiddu allan tímann og voru sjö stigum yfir í hálfleik, 42-35, en Emil Barja setti niður þriggja stiga körfu langt fyrir utan línuna um leið og flautan gall.

Áfram héldu Haukar að leiða og náðu mest 11 stiga forskoti í fjórða leikhluta. Snæfellingar komu með gott áhlaup og minnkuðu muninn í tvö stig þegar innan við mínúta lifði leiks, 79-77. Það er ljóst að Haukar ætla að gefa fólki eitthvað fyrir peninginn sinn en óþarflega mikil spenna myndaðist í lokinn þegar Snæfellingar söxuðu á forskot Hauka. Haukar hins vegar stóðust áhlaup Snæfellinga og kláruðu leikinn á vítalínunni og unnu að lokum 82-77.

Terrence Watson var sem fyrr öflugur í liði Haukanna en hann gerði 31 stig og tók 13 fráköst. Emil Barja náði svo sinni annarri þrefaldri tvennu í fjórum leikjum þegar hann setti niður 21 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Haukar sitja nú í þriðja sæti deildarinnar með 6 stig líkt og Keflavík, KR og Þór Þorl. en þessi lið eiga öll eftir að spila í fjórðu umferð.

Tölfræði leiksins

Tengdar fréttir:
Haukasigur gegn arfaslökum Hólmurum
Myndasafn úr leiknum
Ívar: Erum með fína breidd
Erum aðeins á undan áætlun
Umfjöllun, viðtöl og myndir á vísi.is
Lúxuskvöld í Hafnarfirði
Halló Hafnarfjörður