Haukar sigruðu Val í fjörugum leik

Elías Már var markahæstur Haukamanna í gær með 9 mörkÍ gærkvöldi heimsóttu Haukapiltar Valsmenn í 19. umferð Olisdeildarinnar. Leikurinn var hraður og skemmtilegur en oft hefur sést betri varnarleikur og markvarsla hjá báðum liðum. Í fyrri hálfleik virtust Valsmenn vera skrefinu á undan og náðu 3ja marka forystu á 10. mínútu, 6 – 3. Haukar náðu alltaf að laga sinn hlut og á 18. mínútu var aftur orðið jafnt, 9 – 9. Á 26. mínútu kom Sigurbergur Haukum yfir 13 – 14 og staðan í hálfleik var 15 – 16. Haukar byrjuðu seinni hálfleik mjög vel og á 36. mínútu var staðan orðin 17 – 21. Haukar héldu takinu og náðu mest 5 marka forskoti en lokaniðurstaðan var 30 – 33.
Allt Haukaliðið var vel stemmt og þrátt fyrir að sumir leikmenn hefðu oft átt betri dag þá risu aðrir upp og áttu stórfínan leik. Elías Már og Einar Pétur voru frábærir. Elías skoraði 9 mörk úr jafnmörgum skotum og Einar Pétur 6 og var einnig með 100% nýtingu. Sigurbergur sást ekki á köflum en kom svo inn með frábæra takta og flott mörk og Jón Þorbjörn var mjög traustur á línunni. 

Mörk Hauka: Elías Már Halldórsson 9, Einar Pétur Pétursson 6, Sigurbergur Sveinsson 6/2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 2, Þórður Rafn Guðmundsson 1.
Varin skot: Einar Ólafur Vilmundarson 9 og Giedrius Morkunas 4.

Nú er smá frí á deildinni vegna landsliðsverkefna en næsti leikur hjá strákunum er heimaleikur 10. apríl gegn Akureyri og vinni þeir þann leik eða geri jafntefli eru þeir orðnir deildarmeistarar.

Áfram Haukar!