Haukar sýndu mátt sinn og megin og unnu 15 marka sigur á FH

Brynjólfur Snær Brynjólfsson lék í dag trúlega sinn besta leik í meistaraflokki, 7 mörk úr jafnmörgum tilraunumÞað var fjör í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag þegar Haukar og FH mættust í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla. Haukar voru fyrir leikinn með bakið upp að vegg og urðu að sigra. Sópurinn frægi fór aldrei úr kassanum því strákarnir voru einbeittir og léku við hvern sinn fingur, bæði í vörn og sókn. Einar Ólafur byrjaði í markinu og átti stórfínan leik og varði hvað eftir annað með tilþrifum. Hálfleikstölur voru 18 – 9 og í síðari hálfleik hélt veislan áfram og munurinn jókst. Gestirnir fundu engin svör við leik okkar manna og niðurstaðan varð 15 marka sigur, 39 – 24.

Markahæstir í dag voru Brynjólfur Snær, Adam Haukur og Sigurbergur allir með 7 mörk en bæði Brynjólfur og Adam Haukur voru með 100% nýtingu, frábær árangur hjá þessum ungu leikmönnum. 

Það má með sanni segja að stuðningsmenn Hauka hafi líkað svarað kallinu því mætingin var góð og stemmningin eftir því og í raun öll umgjörð leiksins til fyrirmyndar. 

Mörk Hauka: Brynjólfur Snær Brynjólfsson 7, Sigurbergur Sveinsson 7/2, Adam Haukur Baumruk 7, Jón Þorbjörn Jóhannsson 5, Þórður Rafn Guðmundsson 5, Jónatan Ingi Jónsson 2,  Árni Steinn Steinþórsson 2, Þröstur Þráinsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Elías Már Halldórsson 1.
Varin skot: Einar Ólafur Vilmundarson 15/1, Giedrius Morkunas 3.
Utan vallar: 10 mín.

Nú heldur þessi rimma áfram og er næsti leikur liðanna í Kaplakrika á þriðjudaginn kemur kl. 19:45. Haukar verða að vinna þann leik til að tryggja sér oddaleik, úrslitaleik, í Schenkerhöllinni á fimmtudaginn. 

Nú mætum við öll í rauðu í Krikann og höldum áfram að sýna og sanna hverjir eigi bestu stuðningsmennina í íslenskum handbolta.

Áfram Haukar!