Haukar neita að gefast upp

Haukar unnu mikilvægan sigur á Hamri í kvöld 69-65 í 1. deild karla. Haukar eiga því enn möguleika á að lenda í efsta sæti í 1. deild og fara því beint upp í úrvalsdeildina.

Haukar þurftu að vinna leikinn með fjórum stigum eða meira og það tókst. Ef Hamar hefði unnið leikinn eða tapað með þremur stigum þá hefðu þeir staðið betur á innbyrðisviðureign við Hauka og þ.a.l. tryggt sér sæti í úrvalsdeild á Ásvöllum. En Haukar skemmdu fagnaðarlæti Hvergerðinga.

Ef Haukar vinna þá tvo leiki sem þeir eiga eftir í 1. deildinni og Hamar tapar sínum tveimur fara Haukar upp fyrir Hamar og í efsta sæti deildarinnar.

Leikurinn í kvöld var ekkert sérstaklega fallegur en menn börðust af krafti allan tímann. Það var ljóst frá upphafi að leikmenn voru meðvitaðir um mikilvægi leiksins. Spennustigið var hátt og sást það í leiknum.

Gestirnir voru sterkari þrjá fyrstu leikhlutana en Haukar voru sterkari í lokaleikhlutanum og stóðu uppi sem sterkara liðið þegar það skipti máli.

Haukar unnu 4. leikhluta með 12 stigum en var það Bjarni Árnason sem skoraði síðustu tvö stig Hauka þegar 1.7 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann setti niður tvö víti og breytti stöðunni í 69-65 og Haukar eiga innbyrðisviðureignina við Hamar.

Haukaliðið náði að halda Marvin Valdimarssyni niðri mest allan leikinn en hann skoraði aðeins 12 stig en hann er stigahæsti leikmaður 1. deildar með yfir 30 stig í leik. Hann skoraði 10 stig í 1. leikhluta en eftir það setti hann aðeins tvö stig. Lúðvík Bjarnason og félagar spiluðu frábæra vörn á Marvin.

Bjarni Árnason var besti maður Hauka í kvöld en hann skoraði 23 stig í t.a.m. í 1. leikhluta setti hann niður tvær fjögurra stiga sóknir. Þar sem hann setti þriggja-stiga skot og það var brotið á honum og hann setti svo vítið að auki. Akureyringurinn knái leiddi lið Hauka í kvöld og hann kórónaði svo frábært kvöld með því að setja mikilvægu stigin í lokin.

Næsti leikur Hauka er næstkomandi föstudag við KFÍ á Ísafirði.

Mynd: Lúðvík Bjarnason fagnaði ákaft í leikslok en Lúðvík átti stórleik í vörninni í kvöldstefan@haukar.is