Haukar nálgast úrvalsdeildina

Sævar Haraldsson sækir hér að körfu Valsmanna í kvöld. Hörður Hreiðarsson til varnar en Sævar var með sjö stig í leiknum - mynd: Karfan.is/Tomasz KolodziejskiHaukar unnu sannfærandi sigur á Val í kvöld en liðin há einvígi um laust sæti í Iceland Express-deild karla á næsta ári. Lokatölur leiksins voru 88-69 en varnarleikur Hauka var í fyrirrúmi í kvöld en Valsmenn áttu í miklu basli með sóknarleik sinn.

Óskar Magnússon gaf tóninn fyrir kvöldið en hann setti fyrstu fimm stig leiksins og kom Haukum í 5-0 en Valsmenn náðu að minnka og komast yfir 7-9 en þegar leið á fyrsta leikhluta komust Haukar yfir á ný og það má segja að þar skildu leiðir með liðunum en heimamenn keyrðu muninn upp jafnt og þétt. Valsmenn náðu þó að svara með nokkrum körfum en Haukar voru ávallt skrefi framar og svöruðu með fleiri körfum og unnu að lokum 19 stiga sigur.

Semaj Inge sýndi enn og aftur hversu góður körfuboltamaður hann er hann skoraði  27 stig, tók 13 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 7 boltum.

Óskar Ingi Magnússon var með 17 stig en 15 þeirra komu í fyrri hálfleik.

Haukur Óskarsson spilaði sinn fyrsta leik í vetur með meistaraflokki en þessi efnilegi strákur er búinn að jafna sig á meiðslum sem hafa haldið honum á hliðarlínunni í allan vetur.

Næsti leikur liðanna er á þriðjudag kl. 19.15 í Vodafone-höllinni og hvetur heimasíðan alla að fjölmenna á Hlíðarenda og hjálpa strákunum að tryggja okkur sæti okkar í úrvalsdeild að ári.

Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Myndasafn úr leiknum á Karfan.is
Pétur í viðtali á Karfan.is