Haukar með sterkan sigur á Stjörnunni

Hjálmar Stefánsson

Ungt og bráðefnilegt lið Hauka skipað að stærstum hluta uppöldum Haukamönnum vann í kvöld góðan og sterkan sigur á reynslumiklu liði Stjörnunnar 94 – 85 á heimavelli Stjörnunnar í Ásgarði.  Með sigrinum tryggðu Haukar sé sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins.

Haukar byrjuðu leikinn ekki vel  og náði Stjarnan 11-0 forystu eftir fyrstu 3 mínútur leiksins og var eins og sviðskrekkur væri í ungum leikmönnum Hauka sem þó óx ásmeginn eftir því sem á leikhlutan leið sem endaði  24-14 fyrir Stjörnuna. Annar leikhluti byrjaði með jafnræði með liðunum þar til Siggi Einars kveikti hressilega í Haukum með 2 þristum á stuttum  tíma með víti að auki. Í kjölfarið fylgdi einhver magnaðasti kafli sem undirritaður hefur séð Hauka spila hver þristurinn á fætur öðrum auk glæsilegra gegnumbrota varð til þess að Haukar unnu leikhlutan 30-13. Hjálmar, Kári, Emil og Kristinn voru allir að setja þrista á þessum kafla. Haukar leiddu því hálfleik 44 – 37. 

Seinni hálfleikur byrjaði eins hjá Haukum og sá fyrri 10 -0 fyrir Stjörnunni  áður en Haukar komust á blað, eftir það var leikurinn í járnum út 3 leikhluta, staðan 59-58 fyrir Hauka fyrir lokaleikhlutan. Haukar byrjuðu lokaleikhlutan sterkt og komust í 77-63 með 3 stiga körfu frá Hauki Óskars. Haukar spiluðu síðan eins og þeir sem valdið hafa til enda leiksins þó örvæntingar fullar tilraunir Stjörnumanna við að reyna að komast inn í leikinn hefðu reynt nokkuð á taugar áhorfenda Hauka.

Frábær sigur góðrar liðsheildar var lykillinn að góðum sigri Hauka 94-85. Allir leikmenn Hauka voru að spila mjög vel  sem sést m.a. á því að 6 leikmenn Hauka skoruðu 9 stig eða fleiri í leiknum. Haukur Óskars stigahæstur með 20 stig, Emil Barja með 18stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Kristinn með 15 stig og 10 fráköst  voru að spila sérlega vel.

Yngstu leikmenn Hauka, Kári Jónsson og Hjálmar Stefánsson voru að spila eins og þeir hefðu verið að spila í meistaraflokki  í mörg ár, báru enga virðingu fyrir reynslumiklum leikmönnum  Stjörnunnar skoruðu glæsilegar körfur og lokuðu vel í vörninni. Sérstaklega gaman að sjá Hjálmar 18 ára verja skot frá erlenda leikmanni  Stjörnunnar, stela síðan boltanum af honum, bruna í hraðaupphlaup og troða boltanum með tilþrifum í körfu Stjörnumanna stuttu síðar. Á Karfan.is má finna umfjöllun um leikinn.

Allir leikmenn Hauka voru að spila vel í þessum leik og verður gaman að fylgjast með liðinu í vetur eftir að erlendi leikmaður Hauka kemur til liðs við liðið. Liðið er að spila hraðan og skemmtilegan liðsbolta sem ég vil hvetja Haukamenn til að koma og horfa á. Strákarnir eiga það svo sannarlega skilið eftir góða frammistöðu í undanförnum leikjum að Haukamenn styðji nú vel við bakið á okkar unga og bráðefnilega liði.

Áfram Haukar!!