Haukar með góðan útisigur á Njarvík

Jóhanna SveinsHaukastelpur unnu góðan sigur á Njarðvík í kvöld  68 – 63 fyrir Hauka og gefa því ekkert eftir í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Á sama tíma töpuðu Valskonur fyrir KR og því munar nú einungsi 2 stigum á liðunum þegar 5 umferðir eru eftir í deildinni. 

Leikurinn byrjaði frekar rólega þar sem bæði lið voru að hitta lítið úr skotum og tapa boltanum klaufalega í sókninni. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13 – 12 fyrir Njarðvík.

 

Lítið gekk hjá Haukastelpum í öðrum leikhluta þar sem Njarðvíkingar voru að setja þriggja stiga skotin en þeir settu 7 slík í fyrri hálfleik þar af Erna Hákonardóttir með 4 slíka. Sú eina í Haukaliðinu sem var að spila af eðlilegri getu í fyrri hálfleik var Jóhanna Björk Sveinsdóttir sem kominn var með 8 stig að lokum fyrri hálfleik auk þess að taka nokkur fráköst. Staðan að loknum fyrri hálfleik 34 – 26 fyrir Njarðvík og má segja að Haukastelpur hafi verið heppnar að vera ekki meira undir að loknum fyrri hálfleik því lið Hauka var að spila leikinn langt undir getu þar sem vörn Hauka var langt frá sýnu besta.

 

Mun betra Haukalið kom til leiks í seinni hálfleik, mun þéttari varnarleikur og meira áræðni í sóknarleiknum. Sierra fór að setja niður skotin auk þess sem aðrir leikmenn liðsins fóru að koma með mikilvægt framlag. Haukar ná síðan að jafna leikinn 45 – 45 í lok þriðja leikhluta með því að vinna upp mest 10 stiga forskot Njarðvíkur á síðustu 4 mínútum þriðja leikhluta. 

Haukar komast síðan yfir þegar Gunnhildur Gunnarsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir skora 8 stig í röð og breyta stöðunni í 61 – 53 fyrir Hauka og 3 mínútur til leiksloka. Njarðvíkingar reyndu hvað þeir gátu eftir þetta að jafna metin en höfðu ekki erindi sem erfiði og Haukar kláruðu leikinn mest á vítalínunni í lokinn.

Leikur Haukastelpna var mun betri í seinni hálfleik en hinum fyrri en liðið var að spila langt undir getu. Bestan leik Hauka átti Jóhanna Björk Sveinsdóttir sem setti niður 14 stig í leiknum og sýndi mikla baráttu allan tímann. Sierra hefur átt betri leiki fyrir Hauka en setti þó niður 20 stig og tók 17 fráköst sem er ágætis dagsverk. Gunnhildur, Margrét Rósa, María, Dagbjört og Auður áttu allar ágæta spretti en geta allar spilað mun betur en í þessum leik. Ánægjulegt er að sjá Sólrúnu Ingu koma meira og meira við sögu í leik Haukastelpna enda framtíðar leikmaður þar á ferð.

Haukar: Siarre Evans 20/17 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 14/5 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 10/5 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 9/5 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 5/5 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4/5 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 2, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Aldís Braga Eiríksdóttir 0.