Haukar mæta Tindastól annað kvöld

HaukarHaukastelpur taka á móti Tindastól annað kvöld í 1.deild kvenna í knattspyrnu. Stelpurnar okkar hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum, tveimur þeirra mjög naumlega gegn ÍA og Þrótt R en um sl. helgi steinlág liðið hins vegar gegn sterku Fylkisliði 0-6.

Haukaliðið situr í fimmta sæti deildarinnar en gestirnir eru í því níunda en hafa skal í huga að Tindastóll hefur mætt flestum af sterkustu liðum deildarinnar á útivelli.Gestunum gekk ekki sérstaklega vel á undirbúningstímabilinu og áttu sérstaklega í vandræðum með markaskorun en síðan þá hefur liðið fengið til sín þrjá mjög öfluga leikmenn, tvo erlenda sóknarmann og reynslumikinn varnarmann.

Af Haukastelpum er það að frétta að þær Hulda Sigurðardóttir og Konný Arna Hákonardóttir missa af leiknum vegna meiðsla. Þá er Pála Marie Einarsdóttir farin aftur í Val eftir góðan lánstíma hjá Haukum. Þó vissulega sé alltaf missir í góðum leikmönnum hefur Haukaliðið hins vegar einu mestu breidd liða í deildinni og fá aðrir leikmenn því tækifæri til að láta ljós sitt skína á morgun í leik sem Haukaliðið ætlar sér ekkert nema sigur í.

Við hvetjum allt Haukafólk til að mæta og styðja stelpurnar til sigurs, leikurinn hefst kl.19:15 á Schenkervellinum og er aðgangur ókeypis!