Haukar mæta Hamri í kvöld

Haukar mæta liði Hamars í kvöld í Iceland Express deildinni þegar liðin mætast í Hveragerði. Ljóst er að þetta verður hörku leikur og hefur heimavöllur Hvergerðinga oft verið erfiður ljár í þúfu.

Henning þjálfari segir liðið vel stemmt og að góður stígandi sé í liðinu.

„Það er góður stígandi í okkar liði og stelpurnar eru mjög samstíga í þeim áherslum sem unnið er eftir. Við vinnum eftir þeim markmiðum sem liðið setti sér í upphafi móts og eru stelpurnar mjög vel innstilltar á að ná þeim markmiðum. Í kjölfar markmiðasetningarinnar hefur sjálfstraust leikmanna og trú á eigin getu stóraukist og er allt annað að horfa í augu þeirra í dag heldur en fyrir mánuði síðan, leikgleði og barátta skýn úr hverju andliti og verða þessir einföldu þættir okkar vopn í Hveragerði“

„Ég vonast til að Haukamenn sjái sér fært að fylgja okkur í Hveragerði og styðja stelpurnar okkar í baráttunni“ sagði Henning að lokum en stuðningsmenn Hauka ætla að hittast í dag kl. 18:00 á Ásvöllum og sameinast í bíla til Hveragerðis.

Áfram Haukar