Haukar leiða einvígið 2-0

Haukar unnu frábæran sigur á Keflavík í gær í öðrum leik liðanna í undanúrslitum IE-deildar kvenna og leiða því einvígið 2-0 en þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í úrslitum. Staða Hauka er því góð en sigur Hauka í gær var dýr fyrir liðið því bæði Íris Sverrisdóttir og Guðrún Ámundadóttir urðu fyrir meiðslum og óvíst er með framhaldið hjá þeim.

Haukar byrjuðu með fljúgandi starti og komust í 7-0 en um þrjár mínútur tók fyrir liðið að skora. Keflvíkingar lifnuðu aðeins við þegar líða tók á leikhlutann og Haukar leiddu 22-15 eftir fyrsta leikhluta.

Snemma í öðrum leikhluta féll Íris Sverrisdóttir í gólfið þegar hún sótti að körfu Keflvíkinga með þeim afleiðingum að hné fór úr lið. Kallað var eftir sjúkrabíl og tafðist leikurinn þó nokkuð á meðan beðið var eftir bílnum. Þegar leikurinn hófst á ný komu Haukar betur stemmdir og náðu 10 stiga forystu 37-27 og leiddu með sex í hálfleik 39-33.

Keflvíkingar voru beittir í seinni hálfleik og komust yfir 42-44 með frábærum 5-17 spretti og Haukar jöfnuðu svo metin 48-48. Keflavík leiddi eftir leikhlutann 53-56.

Fjórði leikhluti var gjörsamlega stál í stál og María Lind Sigurðardóttir kom Haukum yfir 70-68 þegar skammt var til leiksloka. Það var svo Gunnhildur Gunnarsdóttir sem að steig upp og setti svellköld niður tvö vítaskot af línunni og kom Haukum í 72-68. Hún stal svo boltanum í sókn Keflavíkur og fór aftur á línuna. Þar setti hún niður annað skotið sitt og tryggði Haukum dýrmætan sigur 73-68.

Næsti leikur liðsins er á morgun í Keflavík.

Stigaskor Hauka: Jence Ann Rhoads 29/3 varin skot, Tierny Jenkins 15/22 fráköst/7 stoðsendingar/5 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 11, María Lind Sigurðardóttir 8/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8/5 stolnir, Guðrún Ósk Ámundardóttir 2/4 fráköst,

Myndasafn úr leiknum eftir Tomasz Kolodzijeski