Haukar komnir í úrslit Coca Cola bikarsins – dagskrá morgundagsins

Þórður Rafn átti ótrúlega innkomu í byrjun seinni hálfleiks og skoraði fyrstu 5 mörkinÞetta var sannkallaður bikarslagur leikurinn sem Haukastrákarnir í handboltanum spiluðu í kvöld þegar þeir léku gegn FH í undanúrslitum í Laugadalshöllinni. Fyrir leik var búist við hörkuleik og sú var raunin enda bæði lið ólm í að komast í sjálfan bikarúrslitaleikinn en stuðningsmenn beggja liða fylltu Höllina og létu vel í sér heyra.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Fátt var um varnir báðum megin framan af en er leið á hálfleikinn fóru liðin að leika betri vörn og skiptust liðin á að hafa yfirhöndina en FH hafði þó forustu í hálfleik með marki á síðustu sekundum hálfleiksins 14 – 13. Patti hefur eitthvað gott sagt við strákanna í hálfleiknum því það var allt annað Haukalið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Vörn og markvarsla var flottt og það tók FH rúmar átta mínútur að skora fyrsta markið sitt en Þórður Rafn hafði þá skorað öll fimm mörk seinni hálfleiks og Haukar komnir fjórum mörkum yfir.
Haukar náðu mest fimm marka forystu í seinni hálfleik en FH gafst aldrei upp og sveiflaðist munurinn frá tveimur mörkum upp í fimm og því var spenna í leiknum allt til leiksloka þó frumkvæðið væri alltaf Hauka og á endanum fór það þannig að Haukarnir náðu innbyrða flottan sigur 30 – 28.

Markahæstur Haukamanna í leiknum var Sigurbergur með 7/2 mörk en á eftir honum með 6 mörk komu Þórður Rafn og Árni Steinn en hann fékk þungt högg á andlitið snemma leiks en náði að hrista það af sér og kom aftur inn á og skorað flott mörk síðar í leiknum. Markverðir Hauka náðu sér ekki á strik í fyrri hálfleik en Giedrius fór á kostum í upphafi seinni hálfleiks og gjörsamlega lokaði markinu. Annars spilaði allt liðið flottan leik og var það eins og svo oft áður flott liðsheild sem skilaði þessum sigri 

Í úrslitaleiknum mæta Haukar liði núverandi bikarmeistara ÍR en þeir unnu Aftureldingu sannfærandi í fyrri undanúrslitaleik dagsins.

Dagskrá morgundagsins fyrir Haukafólk:
Kl. 10:00 hefst forsala á miðum að Ásvöllum.
Kl. 14:00 hittast svo allir á Ásvöllum (í veislusalnum) til að hita upp fyrir leikinn, andlitsmálning, léttar veitingar o.fl.
Kl. 15:00 rútur fara inn í Laugadalshöll og svo til baka að leik loknum.

Mætum öll í rauðu, styðjum Hauka til sigurs og tökum með okkur bikarinn í Fjörðinn.

Áfram Haukar!