Haukar jöfnuðu einvígið með glæsilegum sigri í Kaplakrika

Giedrius Morkunas var stórkostlegur í markinu í kvöldOkkar menn mættu í Kaplakrikann í kvöld í fjórða leiknum í undanúrslitarimmunni við FH. Það voru heimamenn í FH sem byrjuðu betur en staðan var 9 – 6 eftir 16 mínútna leik. Þá tók nýjasti landsliðsmaður Hauka, Giedrius Morkunas, sig til og ákvað að skella í lás í markinu og okkar menn áttu frábæran kafla í kjölfarið. Þegar gengið var til hálfleiks var staðan orðin 11 – 14. Í síðari hálfleik héltu Haukapiltar áfram að blómstra og juku forskotið og á 36. mínútu var staðan orðin 11 – 18. Sem sagt tuttugu mínútna frábær kafli hjá Haukum sem þeir unnu 2 – 12, vel gert. Það má segja að þessi kafli hafi ráðið úrslitum í þessum leik þar sem FH-ingar náðu aftur að minnka muninn niður í þrjú mörk en nær komust þeir ekki og lokaniðurstaðan góður Haukasigur, 21 – 24.

Mig langar að byrja á því að hrósa öllu þessu flotta Haukafólki sem mætti í Krikann í kvöld. Stemmningin í hópnum var frábær og ég endurtek að með þessa stemmningu eru okkur allir vegir færir, strákarnir finna þetta. 

Af leikmönnum Hauka þá er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir markvarðateyminu okkar. Einar Ólafur er búinn að vera jafnbesti maður liðsins í síðastliðnum þremur leikjum. Hann byrjaði í kvöld en fann sig ekki nógu vel og þá kom Giedrius inn á og sýndi frábæra takta og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Mig langar líka að nefna framlag Tjörva Þorgeirssonar. Hann var drjúgur fyrir liðið í kvöld, skoraði bæði mikilvæg mörk og átti margar frábærar stoðsendingar. Sigurbergur Sveinsson var líka magnaður en hann var að vanda markahæstur okkar manna með 8/3 mörk. Í leiknum sáust frábærir taktar, bæði í sókn og vörn og líka mistök en fólk má ekki gleyma að við förum aldrei í gegnum neinn leik án mistaka, hvort sem litið er til sóknar – eða varnarleiks. Við gerðum augljóslega miklu færri mistök en andstæðingurinn og unnum sætan sigur. Fyrirliðinn, Matthías Árni, hitti naglann á höfuðið í viðtali við visir.is eftir leikinn þegar hann sagði að þetta hefði verið vinnusigur liðsheildarinnar.
Haukafólk gekk brosandi og ánægt út úr Krikanum í kvöld og ég veit að allir munu leggjast á eitt á fimmtudaginn í Schenkerhöllinni, bæði leikmenn, þjálfarar og aðrir aðstoðarmenn, ásamt Haukafólki í stúkunni, saman vinnum við þetta einvígi. 

Mörk Haukar: Sigurbergur Sveinsson 8/3, Árni Steinn Steinþórsson 4, Elías Már Halldórsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 3, Einar Pétur Pétursson 2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 1, Þröstur Þráinsson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1, Jónatan Ingi Jónsson 1.
Varin skot: Giedrius Morkunas 20, Einar Ólafur Vilmundarson 2. 

Áfram Haukar!