Haukar handhafar ÍSÍ bikars 2018

Á Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar var Knattspyrnufélaginu Haukum veittur ÍSÍ bikarinn 2018. Bikarinn er afhentur því félagi eða íþróttadeild sem skarar framúr í félagslegri uppbyggingu, leggur áherslu á að hafa sem flesta menntaða þjálfara, kennir eftir námskrám og nær góðum íþróttalegum árangri.

12. apríl sl. var vígður nýr kennslu- og körfuknattleikssalur í Íþróttamiðstöð Hauka að Ásvöllum. Félagið er með fjögur lið í efstu deild í meistaraflokkum kvenna og karla í handknattleik og körfuknattleik og varð meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik Íslandsmeistarar á árinu. Drengjaflokkur í körfuknattleik urðu einnig Íslandsmeistarar. Meistaraflokkar karla og kvenna í handknattleik léku til undanúrslita í Íslandsmóti og mfl. kvenna lék til úrslita í bikarkeppni HSÍ. 5. flokkur kvenna urðu Íslandsmeistarar.

Knattspyrnudeild félagsins er fjölmennust og er starf yngri flokkanna í miklum blóma og hefur á að skipa mörgu efnilegu íþróttafólki. Meistaraflokkar kvenna og karla spila í Inkasso deild og hefur árangur þeirra verið vel viðunandi. Karatedeildin á eina unga og efnilega afrekskonu. Allt að eitthundrað einstaklingar sem stunda hinar margvíslegu íþróttagreinar hjá Haukum hafa á árinu tekið þátt í landsliðsverkefnum sérsambanda ÍSÍ. 80 manns úr almenningsíþróttadeild félagsins ferðaðist til Munchen á árinu og tók þar þátt í götuhlaupi. Um 70 iðkendur, karlar og konur 18 ára og eldri hafa verið virkir í blakdeild félagsins. Að jafnaði eru 40-60 virkir í gönguhóp eldri Haukamanna ásamt því að taka þátt í öflugu félagsstarfi. Félagið starfrækir afreksskóla fyrir nemendur í 8. – 10. bekk, fyrir nemendur í framhaldsskóla og aðra metnaðarfulla íþróttamenn.

Samúel Guðmundsson formaður Hauka tók við bikarnum af Sigríði Jónsdóttur varaformanni ÍSÍ.