Haukar – Grindavík í Dominos deild kvenna í kvöld kl. 19:15

Dýrfinna Arnardóttir

Dýrfinna Arnardóttir

Toppliðin, og einu taplausu liðin, í Dominos deild kvenna mætast í kvöld kl. 19:15 í Schenkerhöllinni og má búast við hörku slag tveggja góðra liða.

Haukar hafa unnið sína fyrstu þrjá leiki en allir þessir leikir hafa verið hörku leikir og hafa stelpurnar sýnt styrk sinn í fjórða leikhluta í öllum þessum leikjum. Í síðasta heimaleik tók Helena yfir leikinn í fjórða leikhluta og Haukar lönduðu góðum sigri eftir að hafa verið undir megin hluta leiksins. Stelpurnar spiluðu síðast á móti Keflavík á útivelli. Keflavík spilaði svæðisvörn megin hluta leiksins og losnaði um Pálínu sem skoraði 37 stig í leiknum en auk þess var Helena með þrefalda tvennu, 17 stig, 17 fráköst og 13 stoðsendingar. Einnig átti hin unga Dýrfinna Arnardóttir mjög góða leik og skoraði 14 stig. Haukaliðið sýndi enn og aftur styrk sinn í fjórða leikhluta en Keflavík hafði leitt með naumri forystu mestan hluta leiksins fram að fjórða en þá fóru Hauka stelpurnar hamförum og unnu verðskuldaðan 14 stiga sigur, 74 – 88.

Grindvíkingar hafa verið að styrkjast mikið síðustu daga, landsliðskonan og fyrrverandi leikmaður Hauka, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir skipti yfir til Grindvíkinga og styrkti liðið gríðarlega en auk þess hafa þær verið að endurheimta góða leikmenn úr meiðslum. Auk þess er Íris Sverrisdóttir, uppalinn Grindvíkingur en spilaði með Haukum í nokkur ár við góðan orðstír í liði Grindvíkinga og verður gaman að sjá báðar þessar stelpur aftur hér í Schenkerhöllinni.

Stelpurnar hafa sýnt mikinn styrk og hefur verið gaman að fylgjast með leikjum þeirra það sem af er tímabilinu og því hvetjum við alla að mæta í Schenkerhöllina og hvetja stelpurnar áfram. það má búast við hörku leik í kvöld.

Áfram Haukar.